Gratíneraður kjúklingaréttur með beikoni, döðlum og hvítlauk

Ég er mjög hrifin af kjúklingaréttum en ég er hinsvegar hætt að tíma að kaupa sykur og vatnssprautaðar fokdýrar kjúklingabringur.
Miklu frekar kaupi ég heilan kjúkling, sýð hann og plokka af honum kjötið. Mörgum vex það í augum og ég skil það alveg, enda aðeins meiri fyrirhöfn en að skera niður bringur í bita og steikja.
Með því að nota allt kjötið af kjúklingnum fær maður bragðmeira og mýkra kjöt svo ég tali nú ekki um sparnaðinn!

Þetta er mjög einfalt og betra að sjóða kjúklinginn en ofnsteikja ef það á að plokka af honum kjötið, hann verður miklu mýkri og auðveldara að ná af honum kjötinu.

Setjið kjúklinginn í passlega stóran pott og látið kalt fljóta vel yfir hann, setjið slatta af salti í vatnið:


Látið suðuna koma upp, lækkið aðeins hitann og sjóðið í ca. 1 klst.

Soðinn kjúklingur er ekki girnilegur að sjá

Kælið kjúklinginn og plokkið af honum allt nýtanlegt kjöt.


Já frábært! Nú er kjötið komið og þá er restin alveg jafn auðveld.
Þessi réttur er mjög einfaldur og fljótlegur og er tilbrigði við einn besta pastarétt sem ég hef á ævinni smakkað. Fullkomið jafnvægi á milli seltu og sætu (ég er voðalega hrifin af svoleiðis).
Í þennan (ekki svo mjög bráðholla) föstudagsrétt fer:

(Kjöt af einum heilum kjúkling)
150gr spínat
100gr magurt beikon
70gr döðlur
4 stór hvítlauksrif
1 msk oregano þurrkað
3 dl vatn
2 dl matreiðslurjómi
3 msk rjómaostur
1 Knorr kjúklingateningur
1/2 Knorr grænmetisteningur
Rifinn ostur

Skerið beikonið og döðlurnar í litla bita, brúnið beikonið á pönnu. Ef það er mikil fita sem kemur af því, þerrið það þá á pappír þegar það er tilbúið og setjið aftur út á pönnuna.
Merjið hvítlaukinn í pressu og bætið út á pönnuna og steikið aðeins með beikoninu í örskamma stund, setjið þá döðlurnar út í ásamt vatninu, oregano og teningunum.
Látið malla saman svolitla stund.


Á meðan þessi blanda mallar, er fínt að nýta tímann og setja spínatið í botninn á eldföstu móti og strá kjúklingnum þar yfir.


Bætið svo matreiðslurjómanum og rjómaosti út á pönnuna og sjóðið niður sósuna í ca. 5 mín.
Þegar sósan er tilbúin, hellið þá þessari ó svo gúrmei blöndu yfir kjúklinginn, fínt að passa að döðlurnar og beikonið dreifist jafn yfir kjúklinginn.


Setjið því næst rifna ostinn yfir allt saman (magn eftir smekk) og bakið í ofni þar til osturinn er orðinn gylltur og fallegur.


Berið fram með góðu salati og kartöfluklöttum (Hash Browns, birti uppskrift í næstu færslu)



Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur