Rib-eye, hvítlauks Hasselback með beikon sveppum og Bernaise!

Það er sko nammidagur í dag!

Og ég hef lengi verið þekkt fyrir að vera mikil kjötæta, er eiginlega smá karlmaður í mér þegar kemur að matarsmekk...
Allavega! Þá var ákveðið að í kvöld yrði almennileg steik og rauðvín.

Ég byrjaði á því að taka 8 fallegar kartöflur í stærri kantinum og skar í þær mjóar rákir eins neðarlega og hægt var án þess þó að skera þær í sundur.
Ég raspaði svo niður einn geiralausan stóran hvítlauk og setti í pott með umþb. 3 msk af smjöri og 1 msk af þurrkaðri steinselju.
Þegar þetta var allt bráðið fallega saman og vel blandað setti ég hvítlauksblönduna yfir hverja kartöflu.
Inn í ofn á 185°c í 40 mín.

Hálftíma áður var ég reyndar búin að taka útúr ísskápnum þessar fallegu Rib eye steikur og pipra þær eins og ég ætti lífið að leysa. Bara pipar og ekkert nema pipar. Saltið kemur síðar.

Þegar kartöflurnar voru búnar að vera í sirka 25 mín í ofninum, hitaði ég á pönnu smá slurk af olíu og 1 tsk af smjöri. Þegar pannan var orðin snarpheit þá skellti ég þessum elskum á og brúnaði þær á hvorri hlið, inn í ofn í eldföstu móti með kjöthitamæli í miðjunni á þessari stærri og fengu að stikna þar þangað til mælirinn sýndi mér 58°c.

Meðan steikurnar voru í ofninum skar ég 6 stóra og væna sveppi í sneiðar. Ég átti líka beikon og ákvað að nota það með, skar 2 stórar sneiðar í litla bita og setti á pönnuna, sveppirnir fylgdu á eftir ásamt ca. 1 msk af smjöri. Já og smá salti. Hjartaáfall góðan dag? :)

Ég er alvöru húsmóðir jájá, en ég viðurkenni alveg að ég kann ekki og nenni ekki að gera alvöru bernes, nei ég stend ekki í því.
Finnst þessi í gulu dollunni best:


Með þessu bar ég fram blandað salat, ekkert of flókið með of miklu í. Það er vesen með svona góðri steik.
Einnig átti ég smá afgang af þessu fína víni hér:


Ég passaði mig auðvitað á því að hvíla aðeins steikina eftir að hún kom úr ofninum. 5 mín fannst mér hæfilegt í þetta sinn. Smá Maldon yfir.
Kartöflurnar voru til (stráði þá smá salti yfir), sveppirnir brúnaðir og stökkir, sósan upphituð og salatið komið úr pokanum (kommon, helduru að ég nenni að skera niður og dúllast núna? Tssss, ekki séns)

Leit svona út áður en ég lét til skarar skríða: (Já menn spara sko ekki sósuna!)


Semsagt í stuttu máli:

8 kartöflur
1 geiralaus hvítlaukur
3 msk smjör
1 msk steinselja
Salt


2 hnausþykkar Rib eye steikur
Nýmalaður pipar
Maldon salt

6 stórir sveppir
2 stórar beikonsneiðar saxaðar smátt
smá smjör

Bernes í dollu

Salat í poka

Ummæli

Vinsælar færslur