Rómverskur pottréttur með ólífum, rauðvíni og timianÞessi réttur er bóndadagsrétturinn heima hjá mér, nei hér eru ekki étnir súrir pungar og hvalspik, ónei.
Sagan er nú bara þannig að fyrir ári eða tveimur (man það ómögulega) rétti ég Hirti 1000 bls. matreiðslubók og bað hann vinsamlegast um að velja sér einhvern gúrmei rétt og ég skildi elda hann. Hvað sem það væri, þá myndi ég elda það - nú svona í bóndadagsgjöf.

Hann kom til mín með bókina og benti á þennan rétt, sem inniheldur flest allt sem ég borða ekki. Eða svo hélt ég. Ólífur, Ansjósur, í samblandi með rauðvíni, hvítlauk og timian. Sko ólífur eru (voru) það ógeðslegasta sem ég veit og ansjósur? Með kjöti? Ójjj!

Ég var búin að lofa þessu og ég myndi standa við þetta.
Svo kom í ljós að á sama tíma og þetta er sá ljótasti réttur sem ég hef borðað, já það er núll girnilegt við þennan rétt að þá er hann klárlega einn sá bragðbesti sem ég hef smakkað.
Svo himneskt og hárfínt samspil seltu, rauðvíns og krydds. Mmmmhh...
Meðlætið er einfalt og passar sérstaklega vel við svona bragðgóðan rétt, heimalöguð kartöflumús í sætari kantinum.

Svona er þetta:

800 gr gúllas (þeir nota lamb í upphaflegu uppskriftinni en þar sem er svo erfitt að fá lambagúllas þá hef ég notað bæði naut og folald með fínum árangri)
1 msk olía og 1 msk smjör
8 hvítlauksrif
8 ansjósuflök
8 timian stilkar
1 bolli rauðvín
1 bolli vatn
lamba eða nautateningur
hálfur grænmetisteningur
8 svartar ólífur - eða fleiri

Kartöflumúsin

8 stórar mjölkartöflur (eða bara venjulegar)
2 msk smjör eða smjörvi
salt
sykur (eftir smekk, ég vil hafa hana frekar sæta)
smá mjólk til þess að þynna.


Setjið ansjósur, hvítlauk og timian saman í mortél:Merjið vel í mortéli hvítlaukinn, timianið og ansjósurnar. Smá þolinmæði þarf í það verk en það getur samt verið dálítið gaman að kremja þetta saman!

Ég var ekki að grínast þegar ég sagði þetta vera pínu ógirnilegt...

Setjið olíu og smjör á pönnu og hitið, setjið kjötið út á og brúnið.


Þegar kjötið hefur verið brúnað, bætið þá rauðvíni, vatni og teningum út á kjötið. Bætið einnig við ansjósumaukinu, lokið pönnunni og sjóðið í ca. 30 mínútur.
Þegar tíminn er liðinn, takið þá lokið af pönnunni og sjóðið niður í ca. 10 mínútur.

Ég sker ólífurnar í sneiðar og set út í sósuna þegar rétturinn er tilbúinn.

Mér finnast niðurskornar svartar ólífur svo fallegar

Ég geri kartöflumúsina þegar ég er að sjóða niður sósuna en það er mjög einfalt að gera kartöflumús sjálfur.
Ég sýð kartöflurnar á sama tíma og kjötið og þær ættu að vera tilbúnar á sama tíma. Ég hræri kartöflumús með handþeytara en þeir sem eru vanir að nota kartöflustappara gera það.
Ég skræli kartöflur og set þær í skál, set salt, sykur og smjör yfir og stappa fyrst aðeins með þeytaranum án þess að hafa hann í gangi, hræri svo saman á lægsta hraða og bæti mjólk út á, passa bara að það sé ekki of mikil mjólk, vil frekar hafa hana þykka en þunna.Ástæðan fyrir því að ég set ekki nákvæmt magn af því sem fer í kartöflumúsina er sú að kartöflur hafa mismunandi áferð og einnig er smekkur fólks misjafn. Þetta er einn sá mesti "dass" réttur/meðlæti sem til er.

Svona áferð vil ég hafa á minni kartöflumús - mjúk en samt með smá kartöflubitum í

Ég var ekki með salat en það er örugglega mjög gott að vera með salat og gott brauð með þessum rétti, lítur örugglega betur út á diskinum með smá litum en so be it...
Ég mana ykkur til þess að prófa, þið verðið ekki svikin!

Já ég veit...

Ummæli

Vinsælar færslur