Stir-Fry Núðlur með grísakjöti, engifer og ananas

Stundum þegar ég nenni ekki að elda þá elda ég stir-fry rétti, finn það grænmeti sem ég á í ísskápnum og nota þá kjúkling, grísakjöt eða nautakjöt með.
Sósurnar eru allskonar, heimagerðar súrsætar, blanda af ostru og teryaki, soja ofl. Þetta kemur alltaf mjög vel út og er alveg sjúklega einfalt, fljótlegt og ódýrt.

Ég er líka dálítið fyrir skyndibita (skamm ég veit) og svona rétti er alveg hægt að kaupa, en það kostar jafnmikið að gera svona rétt heima og að kaupa skammt fyrir einn. Nei ég lýg, það er ca. helmingi ódýrara að gera þetta heima. Ég kaupi nefnilega sjaldnast skyndibita sem ég get gert betur heima hjá mér. Sumt kaupir maður bara ekki!

Kjötið kostar svona 500kall, grænmetið.. tja kannski 200, sósurnar 100, ananasdósin svona 75kall og núðlurnar svona 50kall. Og þetta er réttur fyrir ca 4. Dugir alveg í tvær máltíðir fyrir okkur hákana.

Gerði þennan í kvöld t.d

450-500gr grísagúllas
Vænn bútur af engifer, smátt saxað
5 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1/2 blaðlaukur
1/2 rauð paprika
1/2 græn paprika
2 gulrætur
1 dós kurlaður ananas
3-4 msk Sojasósa
1 dl Teryaki sósa

Eggjanúðlur - Thai choice eða aðrar

Byrjið á því að hita vatn í potti fyrir núðlurnar

Skerið grænmetið í meðalstóra bita og snöggsteikið á stórri pönnu eða wokpönnu með engiferi og hvítlauk. Takið af pönnunni og geymið á meðan þið brúnið kjötið.
Setjið sósurnar og ananasinn út á kjötið og látið malla í smástund. Bætið því næst grænmetinu út á kjötið. Látið grænmetið malla áfram með kjötinu í ca. 5 mín.
Ég smakka þarna oft til og bæti við sojasósu eða teryaki eftir smekk. Alls ekki vera feimin við að rúnna til magnið, uppgefið magn er bara til viðmiðunar. Ég er nú mesti slumpkokkur sem til er. Er eiginlega að giska bara á hvað fór mikið magn af sósunum út á réttinn...

Nú væri ráð að henda núðlunum út í vatnið, látið sjóða í svona 3-5 mín eftir smekk.




Þegar núðlurnar eru tilbúnar þá er kjötið tilbúið.

Maður skellir svo núðlum eftir smekk í djúpan disk og pönnuréttinn ofan á.

Klikkar aldrei!

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur