Hafrastykki með hnetusmjöri og möndlum - Þarf ekki að baka!

Er þetta ekki fallegt??


Mér finnast svona óbökuð múslístykki sjúklega góð, ég veit alveg að þau eru hitaeiningarík en þau eru samt ofsalega holl. Stútfull af næringu og dásemd.
Þegar maður kaupir svona, þarf maður að punga út miklu meira en ég tími, því það er ekkert mál að gera svona sjálfur heima.
Ég studdist við uppskrift frá henni Ellu Helgu (sem lumar á alveg frábærum uppskriftum!)

Þessa uppskrift er hægt að breyta og bæta að vild, alveg frábær grunnur!

Í þetta "batch" fór:

1 bolli hafrar (græni Ota)
1/2 b. kókos
1/2 b. sólblómafræ
1/4 b. hveitikím
1/4 b. sesamfræ
1/4 b. saxaðar möndlur með hýði
1/4 b. saxaðar apríkósur
1/4 b. saxaðar döðlur
1/3 b. hunang
1 msk 100% kakó
1 msk smjör
2 msk fínt hnetusmjör frá Sollu


Í litla skál blandaði ég saman höfrum, kókos, sólblóma og sesamfræjum, hveitikími og möndlum. Geymi það til hliðar á meðan ég tek fram skaftpott í stærra lagi, í hann fer þá hunangið, kakó, smjör, hnetusmjör, apríkósur og döðlur. Bræði þetta vel saman, alveg þannig að það fari að bubbla smá og hnetusmjörið er alveg uppleyst við restina.

Þurrefnunum er svo skúbbað út í pottinn og hrært vel í með sleif, best er að gera það smám saman þar sem það verður aðeins eftir af þeim. (Verður of þurrt ef maður setur allt í einu í pottinn, gott að geyma það sem eftir verður í næsta...)

Ég setti því næst bökunarpappír á bretti og mokaði gúmmelaðinu þar ofan á. Byrjaði að þjappa og móta með sleifinni en mastera alveg "plötuna" með því að setja bökunarpappír ofan á og þrýsta vel þar yfir með öðru bretti.
Bíð svo þar til að mesti hitinn er rokinn úr og setti svo brettið inn í ísskáp. Þegar þetta er orðið kalt og stíft sker ég þetta í ca 8-10 bita (svona "bars"(e.) eða eins og sælgætisstangir) og pakka hverri og einni inn í matarfilmu og geymi í ísskápnum. Geymist þó mjög vel við stofuhita.

Finnst voða sniðugt að stinga einni í veskið og grípa í þegar mig vantar skyndiorku. Fátt eins fúlt eins og að vera í aðstæðum þar sem maður verður allt í einu rosa svangur og maður getur ekkert gert í því. Annað enn að teygja sig í veskið og bústa aðeins upp blóðsykurinn...

Ummæli

Vinsælar færslur