Mexíkóskur grænmetis pottréttur með nýrnabaunum og bankabyggi



Ég er búin að vera svona hálflasin síðustu daga, ekkert eitthvað að drepast en nóg til þess að mér finnist það hundleiðinlegt og hósta og gelti viðstöðulaust allar nætur.
Mér skilst að í slíkum aðstæðum sé sérlega gott að borða eitthvað heitt, sterkt og með hvítlauk. Þar sem ég komst ekki út í búð og er hvort eðer að spara (já það er aðhalds apríl, bæði í fjármálum og mataræði) ákvað ég að gramsa í skápunum og sjá hvort ég fyndi ekki eitthvað sem ég gæti sameinað í einhversskonar súpu/pottrétt.

Jú, þar sem ég er eins og bóndakona frá miðri síðustu öld og sanka að mér allskonar mat í skápa fann ég ýmislegt. Ég á nú reyndar alltaf chili og hvítlauk í ísskápnum og nýtti það grænmeti sem ég átti til og fann þetta fína bygg og baunir.

Afraksturinn er dásamlegur, bragðmikill og sjúklega hollur réttur. Þetta er svona soldið vetrar en líka gott við kvefi og bara allskonar.

1 msk kókosolía
2 laukar
2 geiralausir hvítlaukar
2 stórar rauðar paprikur
1 stór grænn chili
1/2 blaðlaukur
1/2 kúrbítur
1 stilkur sellerí
1 dós saxaðir tómatar
1 lítil dós tómatpúrra
2 kjúklingateningar
1 dós nýrnabaunir
1 dl bankabygg
1 tsk hvítlauksduft
2 tsk cumin
salt & pipar
1 l vatn.

Saxið lauk og hvítlauk og mýkið í kókosolíunni (í frekar stórum potti), saxið rest af grænmeti og bætið út í og steikið í smá stund, ca kannski 4 mín. Bætið út í pottinn, vatni, tómötum, púrru, kryddi, teningum, bygginu og baununum.

Þá lítur þetta ca svona út...

Og ef við förum aðeins nær...




Þetta læt ég sjóða við vægan hita í ca 1 klukkutíma, já byggið þarf sinn tíma nefnilega!

Tilbúið komið á diskinn er þetta einhvernveginn svona:

Hvílíkur unaður!!

Svo væri örugglega algerlega gúrmei að skúbba smá sýrðum eða rifnum útá, en þar sem við erum í aðhalds apríl þá sleppum við því í þetta sinn.

Mæli svo með því að vera með hressa aðstoðarkonu, eldhúsverkin verða töluvert skemmtilegri fyrir vikið!



Njótið!!

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur