Asísk kjúklingaspjót í sesam kryddlegi



Ég alveg hreint eeeelska svona grilluð kjúklingaspjót. Gæti borðað grillaðan kjúkling í öll mál!
Þessi kryddlögur er ansi hreint auðveldur og þægilegur og þarf ekki langan tíma að marínera.

Það sem í hann fer er:

1 dl Teriyaki sósa
2 msk góð sojasósa
2 msk hunang
1 tsk sítrónusafi
6 hvítlauksrif
1 msk sesamfræ
1/2 msk þurrkað engifer eða 2 sm bútur af ferskum

3-4 kjúklingabringur skornar á ská eftir því hvernig bringan "liggur".

Í miðlungs stóra skál sem hægt er að loka (eða ekki, matarplast er sniðug uppfinning) eru öll hráefnin í marinerínguna sett. Hvítlaukurinn og engiferið raspað (ef notað er ferskt) út í vökvann og hrært vel.


Skerið kjúklinabringurnar í strimla og setjið út í löginn, látið marínerast í svona 30 - 45 mínútur.


Á meðan er alveg nauðsynlegt að leggja spjótin í bleyti ef þið notið ekki stálspjót. Það kviknar síður í þeim ef það er gert. (Fékk þessi frábæru þykku og flottu spjót í Olís, fást líka í Ellingsen!)


Að þeim tíma loknum, þræðið kjúklinginn upp á spjótin.


Hitið grillið í góðar 15 mín áður en kjúklingurinn er settur á og gangið úr skugga um að grillið sé hreint. Mæli einnig með því að pensla olíu á grindina áður en spjótin eru lögð á. Ef hitamælir er á grillinu þá er gott að það hafi náð ca 200°c hita.

Leggið spjótin á heita grindina og grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið. Passið upp á að minnka hitann niður í miðlungs.

Þarna gleymdi ég mér í græðgi og hætti að taka myndir! Svona líta spjótin út köld s.s... (mæli 100% með þeim köldum í nesti daginn eftir. Dásamleg!)



Með þessu er hægt að hafa allskonar allskonar en ég var með salat, Veislusalat, rauð vínber, gul paprika, rauðlaukur, agúrka og fetaostur. Smá Ceasar dressing og Teriyaki sósa með. Raspaði yfir salatið helling af parmesan (smá ítalskt - asískt fjúsjón í gangi) og var með hvítlauksbrauð.

Ummæli

Vinsælar færslur