Grill tæm!! Beikonvafðar kjúklingabringur með rjómaosti og grillað hvítlauksbrauð




Oh af hverju líður tíminn svona hratt!! Mánuður síðan ég bloggaði og mér finnst það hafa verið í gær!
Frekar vandræðalegt!

Ég er annars grillsjúk, grilla mikið. Byrja snemma á vorin og hætti seint á haustin (þá tekur huggunarmatur við, allskonar súpur og stjú og slíkt).
Ég grillaði um daginn kjúklingabringur, sem er nú ekkert sérlega merkilegt. Nema hvað þær voru eitthvað svo sérstaklega djúsí. Sérstaklega af því að beikon og döðlur tóku þótt í gamaninu.
Það er bara eitthvað svo heilagt við beikon og döðlur.

Ég tók nú bara mynd af bringunum þegar þær voru tilbúnar. Hefði eiginlega átt að gera alveg session en ég bara var ekki alveg með hugann við efnið.

4 kjúklingabringur
Magurt Ali beikon
Rjómaostur með svörtum pipar
Ferskar döðlur í litlum bitum
Salt&Pipar&Hvítlauksduft
Tannstönglar eða grillpinnar sem legið hafa í bleyti

Þetta er ekki flókið, alveg örugglega ekki mín uppfinning en ótrúlega djúsí.

Hitið grillið alveg upp í amk ca 200°c.

Aðferðin er líka einföld. Tekur bringu og skerð í hana vasa með flugbeittum hníf. Maður verður svolítið að passa sig á því að stinga ekki í gegn því þá fer fyllingin að leka útum allar trissur og grill og það endar bara með veseni.
Allavega. Þegar vasinn hefur verið skorinn, þá er bara ekkert annað en að troða eins miklu magni af döðlum og rjómaosti í hann og hægt er án þess að það gubbist útum allt.
Salta, pipra og hvítlauksdufta eftir smekk (halda nokkurnveginn fyrir opið á meðan og passa að fyllingin fari ekki út). Síðan tekur maður svona 3-4 beikonsneiðar eftir stærð og vefur í kringum bringuna. Reyna að hylja hana eins og hægt er, þó ekkert atriði.
Beikonið festist svona alveg ágætlega, en nú er að festa með tannstönglum sem hafa legið í bleyti (annars kviknar bara í þeim) eða, taka grillpinna og stinga sikksakk í gegnum bringuna og festa beikonið þannig (meira vesen en alveg hægt).

Og nú er trikkið.

Verið búin að hita grillið, það er algert lykilatriði!
Lækkið þó hitann og hafið á ca miðstillingu. Snúið bringunum helst bara einu sinni, annars getur þetta farið til fjandans, fyllingin útum allt og beikonið brunnið!
Kjúklingabringur, fylltar eða ófylltar, er alltaf best að grilla á miðlungshita því það er alveg ómögulegt að hafa brenndar bringur að utan en hráar að innan. Þú veist að hún er tilbúin þegar hún er alveg stinn viðkomu. Þá er líka alveg óþarft að vera að stinga í kjötið. Það er alltaf frekar sjoppulegt hvort eðer!

Með þessu er mjög gott að hafa gott og matarmikið salat og mögulega kannski hvítlauksbrauð (ég hafði ekki brauðið en get alveg ímyndað mér að það sé gott...)

Ég geri hvítlaukbrauð svona:

1 Baguette brauð úr búðinni
100gr stofuheitt smjör
1 heill marinn geiralaus hvítlaukur
1 msk þurrkuð steinselja
smá salt
Rifinn ostur (Gratínostur finnst mér fínn)

Allt nema brauðið sett í skál og hrært saman. Brauðið skorið niður og klofið og vel af smjörinu smurt á. Osturinn settur yfir (magn eftir smekk).
Annað hvort er hægt að setja þetta inn í ofn á ca 200°c. og fylgst með, tilbúið þegar osturinn er gylltur og brauðið krispí.
Eða...
...sett á grillbakka og grillað á opnu grilli, lokað svo aðeins til þess að osturinn bráðni vel. Passa verður þó vel að brauðið brenni ekki.

Sósa er óþörf með, að mínu mati amk. Rjómaosturinn bráðnar og er svona eiginleg sósa.

Svo er þessi unaðs hunangsmjöður víst agalega góður með. Svo segir amk húsbóndinn!



Ummæli

Vinsælar færslur