Bleikar sunnudags Cupcakes með Maple smjörkremi


Það er allt svo yndislega sunnudags og kósí við þessar kökur.
Skítaveður úti og barn sem vaknar kl 6:00, þá er bara lítið annað að gera en að koma sér í huggulegheitagírinn og baka nokkrar Cupcakes (Mér er skelfilega illa við Bollakökunafnið en það er bara ég).
Kakan er súkkulaði og kremið er smjörkrem með maple sýrópi. Klassískt og gott.

Kökurnar eru þessar:

1 bolli hveiti
3/4 b. sykur
1/4 b. kakó
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk lyftiduft
1 stórt egg
1/2 b. súrmjólk eða AB mjólk
1/3 b. matarolía (alls ekki ólífuolía)
1 tsk vanilludropar
1/2 b. sjóðandi vatn.

Þetta er hálf skúffuköku/súkkulaðiköku uppskrift sem ég nota mjög oft og hentar í allskonar.

Öllu nema vatninu skellt í skál og hrært aðeins saman, svo er vatnið sett við og klárað að hræra í dásamlegt deig. Mikilvægt svo eggin sjóði ekki með heita vatninu.
Setjið pappírsform ofan í muffinsbakka og fyllið formin að einum þriðja.
Bakið við 175°c í ca 10-12 mín, fer eftir ofnum auðvitað.

Kremið.
100gr mjúkt smjör
350gr flórsykur, jafnvel meira.
1 tsk vanilludropar
2-3 msk maple sýróp
Bleikur matarlitur

Setjið smjör í skál og þeytið aðeins með þeytara, setjið flórsykur og vanilludropa út í smjörið og þeytið saman, að síðustu fer sýrópið út í. Þeytið kremið vel, og þegar ykkur finnst það vera tilbúið. Þeytið þá samt aðeins lengur. Bætið lit við að síðustu og þeytið þá enn meira. Þeyta er gott.

Setjið kremið í sprautupoka og sprautið á kaldar kökurnar, setjið sprinkles strax yfir svo það festist í kreminu, mér finnst best að sprauta á svona 4 stk, og setja þá yfir og halda svo áfram. Pirrandi þegar skrautið hrynur af!

Gleðilegan sunnudag!

Ummæli

Vinsælar færslur