Þorskur í indverskum kryddhjúp

Ég er mjög hrifin af fiski en einhverra hluta vegna elda ég hann allt of sjaldan. Ég er kannski af þeirri kynslóð sem fúlsar aðeins of auðveldlega við soðningu með kartöflum og feiti en hef lært að meta þann þjóðlega rétt eftir því sem ég eldist.

Mér finnst indverskur matur mjög góður og flest allt sem eldað er undir þeim áhrifum. Í þessum rétti má alveg finna indverskan keim þó hann heiti nú ekki eitthvað töff eins og Tikka Masala blablabla eða Tandoori blablabla fiskur.


Þetta eru ljúffeng þorskstykki hjúpuð með einfaldri kryddblöndu og hentar einkar vel á köldum, dimmum og blautum mánudögum sem þessum.

Innihald:

600gr þorskur skorinn í bita (má alveg nota ýsu)
1 tsk bragðlaus kókosolía
1 laukur
4 hvítlauksrif (eða næstum einn heill geiralaus)
1 lítil dós tómatpúrra
1 dl AB mjólk
3/4 dl Matreiðslurjómi
1 tsk túrmerik
1 tsk cummin
1/2 tsk kóríander
1/2 tsk kardimommur
1 msk sítrónusafi
1/2 tsk sykur
50gr afhýddar möndlur saxaðar
1/2 dl rúsínur

Saxið lauk og hvítlauk mjög smátt, ég notaði pínulitla handhæga matvinnsluvél sem ég gersamlega elska. Setjið kókosolíuna á pönnu og hitið, bætið lauk og hvítlauk út á pönnuna. Steikið við miðlungshita og þegar laukurinn er orðinn mjúkur og glær, bætið þá við kryddunum, möndlum og rúsínum út á pönnuna og steikið áfram í örfáar mínútur. Setjið því næst AB mjólk, matreiðslurjóma og tómatpúrru út á pönnuna og sjóðið aðeins niður. Að síðustu bætið sítrónusafa og sykri út í og mallið áfram í 1 mín eða svo.
Þessi litli sykur og sítrónusafinn gera mjög mikið fyrir réttinn og mæli ekki með því að freistast til að sleppa því. Rúsínurnar finnst mér og manninum persónulega algert möst en þið sem eruð í "hatarúsínur" deildinni megið auðvitað sleppa þeim :)

Setjið fiskinn í ofnfast mót og kryddblönduna yfir. Bakið við 180°c þangað til hjúpurinn er farinn að brúnast. Þetta er misjafnt eftir ofnum en passa þarf að elda fiskinn ekki of mikið, annars verður hann þurr og leiðinlegur.
Berið fram með salati, kartöflum og naanbrauði. Auðvitað er fínt að hafa hrísgrjón í stað þess að vera með kartöflur en persónulega er ég hrifnari af kartöflunum. (Og salatið var búið... en það er mjög gott að hafa það með)

P.s Afsakið þessa hræðilegu mynd, myndavélin á símanum er bara hreint ekkert sérstök.

Ummæli

Vinsælar færslur