Juicy Lucy - Ostafylltur hamborgari

2 ár síðan ég bloggaði síðast, hef þó verið að nota Facebook töluvert, þessa síðu hér : Eldhús Völlu.
Það er bara alls ekki það sama. Kemur þessu bara ekki alveg nægilega vel til skila, erfitt pósta almennilegum myndum og erfitt að leita að uppskriftum. Ætla því að láta facebook síðuna styðja frekar við þessa eins og upphaflega planið var.

Ég ætla að endurpósta einni af uppáhalds subbumats uppskriftunum mínum. Ég er ekki lengur mikið fyrir að kaupa skyndimat því ég er bara einfaldlega að gera miklu betri mat heima hjá mér fyrir brot af þeirri upphæð sem ég hefði annars eytt.



Þetta er hamborgari. Já, ég er hamborgaradrottning.

Hann er ósköp venjulegur á að líta og innihaldið er ósköp klassískt líka. EN, hvað gerist þegar osturinn er tekinn ofan af borgaranum og settur inn í? Jú, þetta er fullkomnun!

Ég á bara myndir af honum tilbúnum og þetta eru vondar myndir, en ég þarf svosem ekkert að útskýra þetta neitt frekar.
Takið 2x 90gr hamborgara, og leggið á bretti, takið svo eina ostsneið (svona fyrirfram sneidda í bakka) og skerið í fernt. Leggið í miðjuna á annan borgarann, leggið hinn yfir og þéttið kantana vel, mjög mikilvægt að það sé vel gert.
Grillið borgarana helst en annars er vel hægt að steikja þá á grillpönnu. Mæli með að stinga prjóni í miðjan borgarann þegar búið er að snúa, svona aðeins til að hleypa gufunni út.
Látið borgarann hvílast aðeins svo bráðni osturinn leki ekki út um allar trissur!

Ég mæli svo með sesamlausum hamborgarabrauðum frá Breiðholtsbakaríi, og amerísku meðlæti og sósum, s.s majó, tómatsósu og sinnepi, salati, lauk, tómötum og súrum gúrkum. En auðvitað er það valkvætt eins og allt annað :)

Gleðilega helgi!

P.s mæli með því að hafa einn ansi kaldan með :)




 Frekar subbulegt...

Ummæli

Vinsælar færslur