Bananakaka með rjómaostakremiÞessi stórgóða kaka er líklega ein af uppáhaldskökunum mínum. Ef ekki bara uppáhalds?
Fann þessa uppskrift einhversstaðar á vafri mínu um netið en man því miður ekki hvaðan ég fékk hana.
Nú, ég kaupi oft banana og oft eiga þeir það til að verða brúnir hjá mér. Sem er gott. Því þá get ég gert svona köku. (*Hvísl*, mér finnast bananabrauð ekkert sérstök).

Hún er einföld, fljótleg og það elska hana allir sem elska banana. Og kanil. Og rjómaostakrem.

Það sem þú þarft í kökuna er eftirfarandi:

3-4 vel þroskaðir bananar
125gr mjúkt smjör
1/2 bolli sykur
2 egg
1 msk mjólk
1 1/2 bolli hveiti
3 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1/2 tsk kanill

Stappið bananana vel og hrærið öllu saman með handþeytara, alls ekki nota hrærivél, það verður að passa að þeyta deigið ekki of mikið. Bakið við 180°c í svona 20 mínútur ef þið setjið deigið í tvö hringlaga form (ég nota 20cm form) en svo er líka hægt að setja þetta í skúffukökuform en þá þarf að baka hana aðeins lengur. Gott að fylgjast þá bara með tímanum. Kakan er tilbúin ef prjóni sem er stungið í hana kemur út hreinn.Og þetta krem! Algerlega himneskt, ekki of sætt á bragðið sem mér finnst kostur.

1 1/2 bolli flórsykur
125gr rjómaostur við stofuhita
30gr mjúkt smjör
1 tsk vanilludropar

Öllu blandað saman í skál og þeytt vel, þá meina ég alveg rosalega vel! Þið sjáið strax hvað gerist þegar krem eru þeytt vel, verða mýkri og meira flöffí. Og það viljum við!

Setjið kremið á kalda kökuna og endilega ef þið eigið pekanhnetur eða valhnetur þá er mjög gott og fallegt að saxa nokkrar niður og strá yfir kökuna. Hún er fullkomin á páskaborðið og örugglega smart að setja pínu gulan matarlit í kremið.

Njótið!

Ummæli

Vinsælar færslur