Enskar skonsur og Lemon Curd




Ég sá um daginn að ákveðið bakarí í Reykjavík er að bjóða uppá lemon curd og eitthvað voðalega girnilegt brauð. Þá mundi ég allt í einu eftir því að mig hefur alltaf langað til þess að prófa að gera svoleiðis sjálf.
Lemon curd er enskt fyrirbæri og er eiginlega eins flauelsmjúkur sítrónubúðingur eða krem. Oft borið fram með skonsum og tei.

Ég vaknaði snemma í morgun eins og venjulega og ákvað að skella mér í þetta, kippti nokkrum sítrónum með mér í búðinni í gær og átti því allt til alls. Þetta er nefnilega svona uppskrift sem inniheldur engin flókin eða dýr hráefni, ég nenni helst ekki svoleiðis uppskriftum. Eina sem maður þarf er smá þolinmæði! Ef maður ætlar að hita þetta of hratt upp gæti maður endað með sítrónuommilettu. Ef þú hefur gert bernaise sósu frá grunni áttu ekki eftir að eiga í neinum vandræðum með þetta :)

Það sem þú þarft í þetta er:

3 sítrónur + börkur
1 1/2 bolli sykur
200gr smjör
4 stór egg
1/2 bolli sítrónusafi (safinn úr sítrónunum)
1/8 tsk salt

Skolið sítrónurnar vel og þerrið. Raspið af þeim börkinn en passið að raspa bara gula hlutann, alls ekki fara niður í þetta hvíta, það er beiskt og ekki gott að hafa með.
Setjið sykurinn og börkinn í matvinnsluvél og blandið saman í smástund. Bætið út í matvinnsluvélina smjörinu, salti og sítrónusafanum og blandið, bætið svo einu eggi úti í einu. Setjið blönduna í stálskál eða pott og hrærið stöðugt í yfir vatnsbaði. Hrærið stöðugt í þangað til blandan fer að þykkna. Þetta tekur svona 15 mínútur og mjög gott að gera þetta á meðan skonsurnar klára að bakast og kólna. Ekki freistast til þess að setja pottinn beint á helluna til þess að flýta fyrir, það er dæmt til þess að enda illa! ;)
Búðingurinn er svo tilbúinn þegar hann festist á sleif. Setjið í hreina krukku og kælið. Búðingurinn þykknar og stífnar þegar hann kólnar.



Skonsurnar eru mjög auðveldar og fínt að gera þetta saman þar sem ég nota matvinnsluvél í hvorutveggja.
Ég setti saxaðar rúsínur og sítrónubörk og dropa í mínar en það er hægt að sleppa því algerlega eða setja trönuber eða eitthvað annað út í. Einnig er hægt að sleppa sykrinum í þeim og setja rifinn ost og hafa þær með mat. Ótrúlega auðveld og góð uppskrift.
Byrjið á því að hita ofninn í 200°C.

Í skonsurnar þarftu:

400gr hveiti
3 tsk lyftiduft
1 tsk salt
5 msk sykur
120gr ískalt smjör í litlum bitum (mjög mikilvægt að hafa það ískalt)
2 1/2 dl mjólk

Auk þess bætti ég við rifnum berki af einni sítrónu, 1 tsk sítrónudropum og 50gr af söxuðum rúsínum (má alveg vera meira)

Setjið þurrefni í matvinnsluvélina og "púlsið" nokkrum sinnum, bætið við smjörinu og blandið rétt svo þannig að stærstu bitarnir af smjörinu séu á stærð við baunir. Ef þið viljið setja rúsínur og sítrónubörk, setijð það núna og "púlsið" svona tvisvar. Bætið mjólkinni út í og blandið rétt svo þannig að deigið loði saman.
Setjið á hveitistráða borðplötu og hnoðið lítillega, fletjið út þannig að deigið sé 2-3cm á þykkt. Skerið út skonsurnar með glasi eða hringlaga piparkökumóti. Varist samt að snúa glasinu í hringi þegar þið skerið kökurnar, best að skera bara beint niður. Þetta gæti haft áhrif á hvernig þær lyfta sér í ofninum.
Leggið þær á plötu klædda bökunarpappír og bakið í 12-14 mín eða þangað til þær eru gullinbrúnar.
Látið kólna í svona 15 mín.

Þessar skonsur með lemon curd og góður kaffibolli er stórkostleg blanda. Bretinn reyndar fær sér góðan tebolla í staðinn og það er ábyggilega ekkert síðra!


Ummæli

Vinsælar færslur