Rigatoni Bolognese með beikoni, balsamic ediki og cheddar

Ég gerði matseðil í gærkvöldi og ákvað að hafa í dag einhvern einfaldan pastarétt. Átti hakk og rigatoni pasta. Fór og gúgglaði allskonar hugmyndir og þetta er útkoman. Alveg ótrúlega góður þó ég segi sjálf frá og sérstaklega þegar maður tekur mið að því að þetta var "taka til í skápnum". En svoleiðis eldamennska finnst mér alltaf svo skemmtileg, þá er einhver áskorun í gangi og finnst eins og ég sé að keppa í matreiðsluþætti þar sem maður fær nokkur furðuleg hráefni og það er ætlast til þess að maður kokki upp eitthvað stórkostleg úr því. 
Þetta er s.s það sem ég legg til í þessa keppni:

500gr nautahakk
9 stórar sneiðar af beikoni (gramma fjöldi óræður) skorið í bita
2 sellerí stilkar saxaður
125gr sveppir saxaðir
1 laukur saxaður 
2 gulrætur skornar í bita
2 hvítlauksrif
1 dós niðursoðnir tómatar í bitum
1 lítil dós tómatpúrra
2 msk balsamic edik
400 ml nautasoð (eða sjóðandi vatn og 2 teningar)
1 bolli rifinn cheddar ostur (má sleppa eða nota venjulegan rifinn ost)
Salt og pipar eftir smekk
500gr Rigatoni pasta
Steikið grænmetið í 2-3 mínútur, ekki brúna. Takið það til hliðar og steikið þá beikonbitana, bætið hakkinu ofan á þá og steikið þar til það er næstum gegnum steikt.

Bætið soði, tómötum, tómatpúrru, balsamediki, og grænmetinu út á pönnuna og látið malla. Smakkið til með salti og pipar.

Þetta mun líta einhvernveginn svona út. Samt ekki nauðsynlegt. 

Svo sýður maður pastað al dente en ég nennti ekkert að taka mynd af því.
Hellir soðinu af og skúbbar innihaldinu af pönnunni út í pottinn, osturinn ofan á og hrært ofurvarlega, pastað er nefnilega svolítið viðkvæmt. Það væri líka þjóðráð að hafa þetta allt í sitthvoru lagi. Bera pastað fram sér. Og strá ostinum yfir kjötsósuna rétt áður en þetta er borið fram.

Cheddar ostur er algerlega lífið!

Skúbba fullt af parmesan ofan á (setti sko mikið meira eftir að ég tók myndina, vildi að þið sæuð pastað!)

Ég var með salat með þessu, en það er líka fínt að hafa hvítlauksbrauð og kannski ferska saxaða basiliku. Sem ég gleymdi, á hana í potti en græðgin er svo mikil...Ummæli

Vinsælar færslur