Tvöfaldar bananarjómapönnukökur


Ó dear, þessar eru algert æði. Ótrúlega einfaldar, doltið hollar, sykurlausar.. ekkert vesen! Allt í lagi, það er náttúrulega ávaxtasykur úr bönununum og smá kókospálmasykur en það er ekki hvítur sykur og ekki eins vondur fyrir mann.
Ég hef alltaf verið hrifin af því að baka með bönunum og svona "amerískar" pönnukökur hafa alltaf verið í uppáhaldi. Bættu við rjóma, meiri bönunum ofaná (og jarðarberjum ef þú átt) og þá erum við algerlega að tala saman! Ég gleymdi að setja kókosolíuna út í í dag og það kom bara alls ekki að sök.

Þessar dúllur innihalda svo lítið sem:

1 þroskaður banani í stærra lagi eða tveir litlir
2 egg
1.25 dl fínmalað spelt
1/4 tsk salt
2 tsk lyftiduft
 1/2 - 1 msk kókospálmasykur (má sleppa)
2 msk nýmjólk (eða önnur mjólk fyrir mjólkurofnæmispésa)
1 msk kókosolía (má líka sleppa)
1 tsk vanilludropar

Byrjið á því að stappa bananann í skál með gaffli, bætið vanilludropum og eggjum út í og pískið vel. Bætið þurrefnum út í og hrærið varlega þar til allt er blandað saman. Ef þörf er á mjólk þá má bæta henni hér út í, einnig olíunni ef þið viljið. Þær verða örlítið þurrari án olíunnar en samt ekki svo, bananinn bætir það upp að mestu.

Bakið pönnukökurnar á góðri teflonpönnu við miðlungshita. Frekar hafa minni hita en meiri svo þær brenni ekki og verði hráar inn í, þolinmæði er lykillinn! Ég fæ svona 6-7 góðar pönnukökur úr þessari uppskrift, verða þykkar og fínar.
Mér finnst best að njóta þeirra með góðum kaffibolla :)


Ummæli

Vinsælar færslur