Jarðarberja og sítrónu ostaköku triffli



Ó hvað ég elska jarðarber og sítrónur mikið, þetta jaðrar næstum við þráhyggju. Og þegar þessu er blandað saman í unaðslegt kombó eins og þetta sem ég ætla nú að deila með mér þá liggur næstum við yfirliði. Bætum við smá rjómaosti og kexmulningi og þetta verður fullkomnun. Ég lofa.
Þessi eftirréttur er mjög sumarlegur og alveg passlega sætur. Mæli með því að gera þennan þegar það er jarðarberja útsala, nú eða útborgunardagur. Jarðarber eru því miður ekkert sérstaklega ódýr hér á landi en einstaka sinnum koma góðar jarðarberja útsölur. Þá kaupi ég yfirleitt nokkra bakka. Alveg vandræðalega marga. Og fer svo jafnvel aftur í búðina til þess að kaupa meira. Jöbb, þá hamstra ég!
Þetta er smá föndur og mæli sérstaklega með því að gefa sér tíma um eða yfir hádegi ef þetta á að vera í boði sem eftirréttur. Það má örugglega geyma trifflið í kæli yfir nótt ef ætlunin er að bjóða upp á það í eftirmiðdaginn sem rétt á afmælisborði. Hugsa einmitt með mér að þetta sé fullkomið sem mótvægi við súkkulaðikökur í afmælum, eru ekki allir komnir með leið á marens annars? ;)

Við tökum til meðalstóra glerskál, ekkert verra ef hún er falleg.
Byrjum á því að gera kexmulninginn sem fer í botninn:

Kexmulningur

rúmlega hálfur pakki appelsínugulur hobnobs
70gr brætt smjör
2 msk flórsykur

Myljið kexið og setjið í skál, smjöri og sykri bætt út í og hrært saman með skeið. Þrýstið helmingnum ofan í skálina, eða einum þriðja ef þið viljið hafa 3 lög af kexi.

Sítrónuostablanda

225gr rjómaostur
1 lítil dós kea vanilluskyr
1 1/2 dl rjómi þeyttur
börkur af heilli sítrónu
safi úr hálfri sítrónu
4 matarlímsblöð
Flórsykur eftir smekk (ég setti kannski 3 msk, annars bara man ég það ekki, þetta er svona smakka til atriði)

Þeytið 1 og hálfan desilíter af rjóma og setjið til hliðar. Þeytið svo saman rjómaostinn og skyrið ásamt flórsykri, raspið út í blönduna sítrónubörkinn og hrærið við ostablönduna.
Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn í ca. 5 mín. Setjið sítrónusafann í lítinn pott og hitið að suðu, kreistið þá vatnið úr matarlíminu og setjið út í sítrónusafann. Þegar límið er alveg brætt og blandan vel heit, hellið henni þá í mjórri bunu út í ostablönduna og þeytið aðeins áfram. Smakkið svo aftur hérna, þarf meiri flórsykur? bæta við hér og hræra vel. Hrærið að síðustu þeytta rjómanum saman við.

500gr Jarðarber (má alveg vera meira mín vegna ;) )
1 pk Lady finger kex (má sleppa)
Jarðarberja Jello útbúið samkvæmt leiðbeiningum (sleppið ef fingurkexið er ekki notað)

Þá hefst röðunin.

Þjappið helming eða einum þriðja af kexmulningnum ofan í skál, raðið fingurkexinu í hring (ef það er notað) og hellið svo hluta af rjómaostablöndunni yfir kexið:


Raðið svo jarðarberjasneiðum eftir smekk ofan á ostablönduna (meira er betra).


Og meira kex...

Og mikið meira af jarðarberjum...


Hérna gæti komið meira af kexi, fer eftir því hvort eitthvað sé eftir, ef ekki kemur það ekki að sök, því það er fínt að setja bara strax aftur meira af ostablöndunni:


Og núna enn meira af jarðarberjasneiðum....


Að síðustu hellum við jelloblöndunni vel yfir kexið, ég hefði mátt setja meira því það var ekki nógu blautt, en ef þú sleppir lady finger kexinu, þá sleppir þú líka jellóinu. Nema að þú viljir fá hlauplag ofan á jarðarberin.


Geymið í kæli í nokkra klukkutíma. Og já, ég var svo gráðug að ég gleymi að taka lekkera mynd af þessum unaði á fallegum diski. Með ostakökublik í augum og jarðarber út á kinn mundi ég eftir því að taka mynd. Þessvegna eru þær svona...





En hún er falleg er það ekki? Svona þrátt fyrir allt ;)

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur