Sykurlaust bananabrauð
Ég er alger sökker fyrir bananabakstri eins og hefur örugglega komið fram hérna einhversstaðar. Bananamuffins og bananabrauð hverskonar eru þar efst á lista. Það þarf í raun ekki auka sætu þegar maður er með vel þroskaða banana en margar uppskriftir gera ráð fyrir gríðarlegu magni af sykri. En þá koma döðlur sterkar inn. Ég elska döðlur næstum jafn mikið og jarðarber. Alveg frábær staðgengill sykurs í bakstri og nýti mér þær óspart.

Þessi uppskrift sem ég ætla að gefa ykkur er samsuða úr allskonar uppskriftum sem ég fann á internetinu með allskonar breytingum og viðbótum.
Hún er eftirfarandi:

140gr döðlur
2 þroskaðir bananar
1/2 dl olía
1 dl ab mjólk
1 tsk vanilludropar
2 stór egg
110gr haframjöl
80gr gróft spelt
1/2 tsk salt
3 tsk lyftiduft

Byrjið á því að leggja döðlurnar í sjóðandi vatn á meðan þið græjið annað á meðan. (Þarf ekki ef þið notið ferskar döðlur). Setjið í blandara banana, olíu, ab mjólk, vanilludropa og egg, hellið vatninu af döðlunum og setjið í blandarann. Þeytið þetta á milljón þangað til allt er orðið vel maukað. Setjið þá þurrefnin út í og blandið bara rétt saman við með því að ýta á "pulse". Alls ekki setja blandarann á fullt eftir að þurrefnin eru komin út í því þá verður brauðið þétt og leiðinlegt.
Setjið í smurt ílangt form eða klæðið formið með bökunarpappír.


 Bakið við 175°c í 45mín. Fer eftir ofnum þó, fylgist bara vel með. Það er tilbúið þegar það er gyllt á lit og prjónn kemur hreinn út sem hefur verið stungið í brauðið.


Ummæli

Vinsælar færslur