Sykurlausar smákökur með eplum, rúsínum og kanilÉg er hreinlega elska að fletta í gegnum matarmyndir á Pinterest í von um smávegis innblástur. Oftast finn ég eitthvað sniðugt sem kveikir hugmynd að nýrri uppskrift og þessi er akkúrat þannig. Ég er alltaf að reyna að finna eitthvað sniðugt sem ég get gúmmelaðast (já það er sko orð) með kaffinu án þess að liggja í sykurvímu á eftir. Ég er nýbúin að kaupa mér Sugarless Sugar frá Now og vantaði einhverja sniðuga uppskrift til þess að prófa þetta nýja (nýtt fyrir mér amk!)
Ég er bara nokkuð hrifin af þessum "sykri" og finnst hann svona minnst gervilegastur af þeim sem ég hef prófað en þetta er blanda af Erythritoli og Stevíu.
Ég mæli 100% með þessum litlu kökum en mín vegna mætti alveg vera aðeins minna af "sykrinum", ég notaði 2/3b en mætti alveg vera bara 1/2b.

Innihald:

1 bolli heilhveiti eða gróft spelt
2 bollar grófir hafrar
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk sjávarsalt
1 tsk kanill
1 mjög slappur banani
2 meðalstór egg
2 msk olía
1/2 - 2/3 bolli Sugarless sugar frá Now
1 tsk vanilluessence (eða dropar)
1 jonagold epli afhýtt og rifið á rifjárni
1/2 bolli rúsínur

Byrjið á því að hita ofninn í 180°c. Takið svo stóra skál og setjið bananann í hana, stappið hann í spað og bætið við eggjum, olíu, vanilluessence og Sugarless sugar og þeytið vel með handþeytara. (Eða mjög vel með písk). Blandið saman hveiti, höfrum, lyftidufti, matarsóda, salti og kanil í skál og blandið saman. Hellið út í blautefnin í nokkrum skömmtum og hrærið varlega á milli með sleikju. Að síðustu þegar allt er blandað saman setjið þið rifna eplið og rúsínurnar.
Setjið á bökunarplötu með skeið og bakið í ca. 13-15mín.
Það er svolítið erfitt að hemja sig, gleypti í mig þrjár! Smakkast ótrúlega vel með funheitu kaffi ;)


"Sykurinn" lítur svona út, keypti minn á heilsudögunum í Nettó!

Ummæli

Vinsælar færslur