TacosúpaMér finnst mexíkósk kjúklingasúpa rosa góð. En það er ekkert alltaf, eða eiginlega bara sjaldan sem ég nenni að gera hana. Svo tími ég sjaldan að kaupa kjúklingabringur. Er soddan nískupúki. Mig langaði í einhverja mexíkóska súpu og mundi eftir að hafa einhverntíma séð súpu svipaða þessari. Ég tók bara eitthvað grænmeti sem ég átti. Átti afgang af hakki. Fann líka rjóma síðan ég hélt smá kaffiboð um helgina.. hitt og þetta og allskonar og úr varð þessi agalega fína mexíkóska tacosúpa. 
Mér þykir agalega leiðinlegt að fara sérstaka ferð í búðina til þess að kaupa í eina uppskrift. Enda því oftast með að nýta eitthvað sem ég á. En þá er líka gott að eiga ágætis "pantry". 
Ég á yfirleitt nokkrar tegundir af baunum og fræjum, niðursoðna tómata, tómapúrru, ýmis krydd og allskonar. Eitthvað sem endist eitthvað. Ég tel allavega sjálfri mér trú um það að það sé sparnaður í því. ;)

Þetta endaði einhvernveginn svona:

250gr nautahakk
2 gulrætur
1 paprika rauð
1 rauðlaukur
1 blaðlaukur hvíti hlutinn
3 hvítlauksrif
1 bréf tacokrydd
1 nautateningur
Stór krukka salsasósa eða eftir smekk. Styrkleiki fer líka eftir smekk
1 lítil dós tómatpúrra og síðan tóm fernan fyllt af vatni og sett út í
1 ferna tómat passata (þykkur tómatsafi í fernu)
2 dl matreiðslurjómi, eða venjulegur rjómi

Sýrður rjómi
Flögur
Rifinn ostur ef vill

 Ég saxaði allt grænmetið og svissaði það í stórum potti. Bætti síðan hakkinu út í og kryddaði með tacokryddinu. Því næst setti ég tómatsafann út í, fyllti síðan tóma fernuna af köldu vatni og bætti í pottinn. Nautateningi hent út í og látið malla í svona 20 mín. Bætti síðan rjómanum út í og lét malla í svona 10 mín í viðbót.
Var einmitt mjög fínt að nota tímann á meðan súpan mallaði að ganga frá í eldhúsinu, leikföngum dótturinnar, þvotti ofl. Elska mat sem eldar sig sjálfur!
Svo skúbbuðum við sýrðum rjóma út á og flögum og allir sáttir!

P.s Hugsa að þessi súpa nægi fyrir svona 4 svanga. Við vorum allavega 3 og þar af tvö mjög svöng. Og það er afgangur! Halló nesti!

Ummæli

Vinsælar færslur