Hnetusmjörsnammi - Þarf ekki að baka!


Ó ef aðeins ég gæti borðað hnetusmjör í öll mál. Þá væri nú gaman að lifa!
Ég hef alltaf verið afar veik fyrir öllu sem hnetusmjör er í. Og þessi tvenna, hnetusmjör og súkkulaði var fundin upp í himnaríki, er ég viss um. Ég er alveg þessi sem rýk upp til handa og fóta þegar það kemur hnetusmjörsútgáfa af einhverri þekktri sælgætistegund, eins og t.d Lion bar með hnetusmjöri, hvaða snillingur fann upp á því?!

En jæja, að máli málanna.

Þetta er óbakað sælgæti sem auðvelt er að gera, þarf bara að kæla aðeins á milli. Innihaldsefnin eru ekki dýr, ég er ekkert heldur að snobba fyrir tegundum innihaldsefnanna. Ég nota hér Euroshopper kornflex og Euroshopper hnetusmjör og salthnetur og ég bara verð að viðurkenna, finn engan mun og á því og á þekktum vörumerkjum. Svo enginn fer á hausinn við gerð þessa nammis.
Ég er svo innilega búin að ákveða að þetta verði jólakonfektið mitt í ár. Á örugglega eftir að gera sjöfalda uppskrift!

En jæja. Í þetta þarf:

1/2 bolla sykur
1/2 bolla síróp (notaði þetta í grænu dollunum)
1 bolla ES hnetusmjör (skiptir samt engu máli hvernig, held bara að það virki ekki alveg nógu vel að vera með hreinu hnetusmjörin í þessu, þetta þarf að bráðna svolítið)
1/3 bolla salthnetur, aðeins saxað í þær
3 bollar kornflex gróflega mulið
150gr súkkulaði, má vera bara suðusúkkulaði, eða bara mjólkur. Ég notaði 100gr af suðusúkkulaði og 50gr af hvítu og blandaði saman.

Setjið sykur, síróp og hnetusmjör í pott og bræðið saman. Bætið salthnetum og kornflexi út í pottinn og hrærið saman. Setjið bökunarpappír í skúffukökuform og þjappið blöndunni þar ofan í. Kælið mjög vel, ég setti mitt út á svalir, tók enga stund að kólna.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og smyrjið yfir kalda "kökuna". Kælið aftur vel og skerið í teninga.

Njótið svo vel!
Girnilegt! (afsakið myndgæðin samt, mynd tekin á síma að kvöldi verður aldrei góð!)

Ummæli

Vinsælar færslur