Brauð í potti - Líklega besta heimabakaða brauðið!

Þessa dagana er ég öll í því að gera "besta" þetta og "besta"hitt. Hef verið voðalega lánsöm og allt sem ég hef verið að prófa og gera hefur smakkast ótrúlega vel. Þetta brauð sem ég gerði í dag (og byrjaði á í gær) er það besta sem ég hef nokkurn tíma gert heima hjá mér. Í alvöru talað.
Það er algerlega á pari við 750 króna súrdeigsbrauðið sem ég hef stundum keypt í ónefndu bakaríi og blætt fyrir. Þetta brauð kostar hinsvegar í mesta lagi 150kall. Það er nefnilega ekkert í þessu að viti. Það er það fáránlega í rauninni. Eina sem maður þarf að eiga er ofn og pottur sem má fara inn í ofn. Það er mjög gott að nota frönsku leirpottana, en alveg hægt að nota líka svörtu venjulegu ofnpottana.

Hugmyndin er ekki mín og uppskriftin er ekki mín, ég ætla ekki einu sinni að reyna að stela henni. Margar útgáfur af svona brauðum eru til og ég studdist við þessa uppskrift. Ég set inn nokkrar myndir af ferlinu, bara svona til að sýna að þetta er sko ekkert plat!

Þarna var ég búin að blanda saman hráefnunum í skál og búa til frekar blautt deig, á leið í 14-18 tíma hefingu!

Þetta er eftir hefingu #1. Maður tekur s.s deigið eftir 14-18 tíma, setur vel af hveiti á hendurnar og býrð til kúlu með því að teygja deigið undir kúluna. Leggið kúluna svo á hveitistráðan bökunarpappír og stráið hveiti líka ofan á. Brjótið pappírinn utan um deigið og setjið viskustykki yfir. Hefið í ca. 2 tíma. Þegar hefun er brátt lokið, forhitið þá pottinn í ofninum á 220°c.

Þarna er deigið tilbúið að fara í sjóðheitan pottinn!

Smá trikkí en það hafðist, setjið aðra höndina undir bökunarpappírinn og hvolfið deiginu í hann, núna fara s.s samskeytin upp. 

Þarna er brauðið búið að bakast í 40 mín í ofninum. Tek lokið af og aftur inn í ofn í 7-10 mín.

Tadaaaaa!!!!

Það er í alvöru svona fallegt!

Sjáið fagmennskuna hah?! Að sögn mannsins míns hefur síðasta bakarísferðin verið farin! ;)


Uppskriftin:

6 bollar brauðhveiti (bláa kornax, það er best í brauðbakstur)
1/2 tsk þurrger
2 1/2 tsk salt
2 og 2/3 b. kalt vatn. Þurfti reyndar að bæta aðeins við vatni, fer líklega bara eftir aðstæðum. 

Ummæli

  1. Þetta lítur vel út :) Hefurðu prufað að nota spelt í þetta?

    SvaraEyða
  2. Sæl Jónína og fyrirgefðu hvað ég er sein að svara þér, ég hef ekki prófað að nota spelt en ég notaði um daginn 50/50 hveiti og heilhveiti og það var frekar þétt og leiðinlegt. Mér finnst best að nota bara bláa hveitið frá Kornax en það er örugglega gaman að prófa fínt spelt. Væri gaman að heyra ef þú hefur eða ætlar að prófa speltið :)

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur