Snúðar - betri en úr bakaríinu!


Já nú er ég aldeilis að fullyrða stórt! Mér finnast þessir snúðar miklu betri en þeir sem fást í bakaríum og það er auk þess talsvert ódýrara að gera þá heima. Það er auðvelt að frysta þá og taka þá bara svo út og hita upp eftir þörfum. Þeir eru svo ótrúlega lítið vesen að það er eiginlega bara lygilegt. Það eru nokkur atriði í aðferðinni sem gerir það að verkum að þeir verða alveg svakalega mjúkir og góðir. Algerlega fullkomnir í helgarbaksturinn eða þegar ætlunin er að baka mikið og eiga í frysti. Þá er tilvalið að tvöfalda uppskriftina!

Innihaldsefni:

700gr Kornax brauðhveiti í bláu pokunum (mæli með því að nota frekar brauðhveiti í gerbakstur)
1 1/2 tsk salt
4 tsk þurrger
80gr sykur
4 dl volgt vatn
1 dl jurtaolía

Fylling:
3msk sykur
3msk púðursykur
1 msk kanill
Blandið saman í skál

Setjið saman þurrefnin í hrærivélaskál og blandið aðeins saman með króknum. Bætið við vökvanum og hnoðið í hrærivélinni, fyrst mjög varlega en aukið svo aðeins hraðann. Hér er lykilatriði að hnoða deigið lengi. 5mín er gott, mæli með því að fylgjast með tímanum, ég tók einmitt úr uppþvottavélinni og fór að raða í hana á meðan!
Látið hefast á volgum stað með rakt stykki yfir í ca. 30 mín.

Takið svo deigið úr skálinni og setjið á hveitistráða borðplötu. Fletið það út í nokkuð góðan ferhyrning og stráið sykur/kanilblöndunni jafnt yfir deigið (Athugið að ég set ekkert smjör undir sykurinn!). Rúllið upp í lengju og lokið kantinum með því að pensla hann með vatni. Skerið lengjuna í hæfilega snúða og raðið á plötu.
Nú kemur annað gott trix. Hitið ofninn í 50°c, úðið snúðana með volgu vatni og setjið í ofninn. Látið hefast í ofninum í 45mín. Úðið snúðana 1x-2x á tímanum.

Takið snúðana út og hitið ofninn í 220°c. Bakið þá í ca. 10-12 mín, fer þó eftir ofnum. Fylgist bara með.

Mér finnst best að setja súkkulaðiglassúr, ég slumpa flórsykri, smá kakói og örlítilli slettu af vatni eða mjólk (kúa eða jurta) og blanda saman, betra að hafa hann þykkari en þynnri. Set á þá þegar þeir eru orðnir nánast kaldir (svo glassúrinn leki ekki útum allt!)

Þessir eru algert æði!

Ummæli

 1. Er í lagi að nota heilhveiti?

  SvaraEyða
 2. Sæl Erla, ef þú notar bara heilhveiti hugsa ég að það sé hætt við því að þeir verði frekar þéttir í sér, en hugsa að það sé ágætt að nota 50/50 heilhveiti og hveiti.

  SvaraEyða
 3. Sæl. Verða snúðarnir ekki seigir ef degið er hnoðað svona lengi?

  SvaraEyða
 4. Sæl Rúna, nei þvert á móti finnst mér þeir verða mýkri ef þeir eru hnoðaðir svona lengi fyrir fyrstu hefun. Og þeir lyftast alveg sérstaklega vel í seinni hefuninni ef þeir eru settir inn í ofninn í svo lágan hita með raka. Endilega kíktu á þessa grein ef þú hefur tækifæri til: http://www.thekitchn.com/bread-baking-tip-how-to-tell-w-156772
  Kær kveðja!

  SvaraEyða
 5. Rúna!

  Sú regla á við um köku deig ekki brauðdeig eða gerdeig.

  SvaraEyða
  Svör
  1. þetta passar alveg við gerdeig, að það geti orðið seigt, ég hugsaði það strax við lesturinn ;)

   Eyða
 6. Hvað koma margir snúðar úr uppskriftinni?

  SvaraEyða
  Svör
  1. Sæl Ragnheiður, það fer í raun alveg eftir stærð þeirra, ég hef alveg fengið ca. 18 meðal stóra snúða en gert svo færri og stærri snúða líka. Ég hef þá yfirleitt þannig að þeir séu um það bil 10 cm í þvermál eftir bökun.
   Kv. Valla

   Eyða
 7. Hvað er brauð hveiti ? Venjulegt hveiti ?

  SvaraEyða
  Svör
  1. Sæl Sigga, brauðhveiti er próteinríkara en venjulegt (kökuhveiti) og hentar betur í gerbakstur. Á Íslandi fæst það frá Kornax og er í bláum pokum á meðan þetta venjulega er í rauðum. Kær kveðja, Valla

   Eyða
 8. Sæl Valla, hlakka til að prófa þessa uppskrift, ég bý í Danmörku og hér fáum við svipaða snúða á miðvikudögum (onsdags snegle) en þeir eru ekki jafn góðir og íslensku.
  Frystir þú þá tilbúna með súkkulaði eða deigið upprúllað og tilbúið í ofninn?
  Kær kveðja Arndís

  SvaraEyða
  Svör
  1. Komdu sæl Arndís, ég mæli með því að frysta þá tilbúna en án glassúrs. Þá er gott að baka þá örlítið skemur og hita þá svo upp í ofninum. Ég hef ekki prófað að frysta þá óbakaða en það gæti komið vel út að frysta þá í sneiðum en áður en þú hefar. Þá væri hægt að taka þá út og hefa þá í ofninum og baka strax á eftir. Vona að ég komi þessu almennilega frá mér, annars ekki hika við að heyra í mér aftur :)
   Gangi þér vel! Kv. Valla

   Eyða
 9. Hæ, ég átti rjóma í ísskápnum en ekki mjólk svo ég notaði hann í glassúrinn í staðinn, það er algjört æði og ég mun gera það hér eftir.
  Þessir snúðar eru með mestu snilld sem hægt er að baka, ótrúlega einfaldir og ótrúlega góðir!!!

  SvaraEyða
  Svör
  1. ...og ég setti smá vanillusykur í glassúrinn líka :)

   Eyða
  2. Hæhæ! Ég þarf sko sannarlega að prófa þína útgáfu af glassúrnum, takk fyrir! (rjómi gerir allt betra, það er bara þannig ;) )

   Eyða
 10. hæ, ég hef eiginlega aldrei bakað neitt um ævina, en mig langar að prufa þessa. fæst ekkert líkt þessum snúðum hérna í Englandi. bara smá pæling, ég á auðvitað ekki hrærivél, er í lagi að hræra þetta td með sleif í skál? ég á ekki einusinni til kökukefli :)

  SvaraEyða
  Svör
  1. Hæhæ, já auðvitað er það ekkert mál. Ég mæli þá með því að blanda saman innihaldsefnunum í skál og nota sleif til þess að hræra en færa svo deigið á hveitistráða borðplötu og hnoða vel og lengi í höndunum. Gangi þér vel!

   Eyða
 11. Pínu sítrónusafa i glassúrinn þá er komið bakarís glassúr.

  SvaraEyða
 12. Hvað eru rúllurnar ca þykkar og langar ? Og ca. Hvað margir snúðar útúr uppskriftinni ? Líst rosa vel á ;)

  SvaraEyða
  Svör
  1. Hæhæ! Þegar ég flet hana út (ein uppskrift nægir í eina rúllu) þá er hún líklega um hálfur meter að lengd og tæpur cm að þykkt. En þá er ég svona að skjóta blint út í loftið. Snúðarnir blása svo svakalega út að þessir stærstu blása út í að vera eins og tæpur bakaríssnúður. Snúðarnir úr miðri rúllu verða stærstir og svo minnka þeir til endanna en mér finnst gott að hafa þá misstóra. Stundum langar manni bara í einn lítinn ;)
   Þetta eru kannski 18 - 20 snúðar sem fást úr uppskriftinni, set þá á 2 plötur.

   Eyða
 13. Hæ. Eg bý í Færeyjum og finn ekkert sem heitir brauðhveiti. Er einhvad annad sem hægt er að nota í staðin ? Eg prufaði með venjulegu hveiti en deigið varð alt of stíft og ekki hægt að nota tad.

  SvaraEyða
 14. virkar að nota lyftiduft í stað gers?

  SvaraEyða
 15. Var að baka þessa tókust mjög vel 👍 og mjög góðir

  SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur