Súkkulaðismákökur með salthnetum, súkkulaðibitum og hnetusmjöri


Súkkulaði með súkkulaði. Já einmitt. Þetta eru dökkar smákökur með söxuðu súkkulaði, hnetusmjöri og salthnetum og þær eru betri en þær hljóma. Ef það er þá hægt!

Þetta er uppskrift sem er byggð á þessari uppskrift sem ég birti um daginn.

Einu breytingarnar sem ég gerði voru:

Bæta 2 msk af kakói í deigið
Í staðinn fyrir hvítt súkkulaði setti ég suðusúkkulaði
Í staðinn fyrir valhnetur setti ég 100gr af salhnetum
Sleppti saltinu þar sem ég var að setja salthnetur, taldi saltmagnið verða of mikið.

Svo þannig lítur þetta út:

Innihald:

1 og 1/4 b. hveiti
1 b. grófir hafrar (appelsínuguli Solgryn)
2 msk kakó
1/2 tsk matarsódi
115gr smjör
6 msk hnetusmjör (ekki lífrænt, frekar ES eða Peter Pan)
1 b. púðursykur
1/2 b. sykur
1 stórt egg + 1 eggjarauða við stofuhita
2 tsk vanilludropar
80gr grófsaxað súkkulaði eða dropar
100gr salthnetur gróflega saxaðar

Byrjið á því að hita ofninn í 170°C. Setjið púðursykur og sykur í skál. Bræðið smjörið og hnetusmjörið við vægan hita í potti. Setjið þurrefnin í skál og setjið til hliðar. Hellið smjörblöndu yfir sykurinn og hrærið saman, sykurinn bráðnar aðeins við þetta, sem er gott! Hrærið þetta vel og blandið því næst eggjum og vanilludropum saman við, Hellið þessu blauta í þurrefnin og blandið varlega saman með sleikju. Þegar þetta er orðið samfellt (og verður nokkuð þykkt) deig, blandið þá hnetunum og súkkulaðinu saman við. Setjið deigið á bökunarpappírsklædda bökunarplötu með 2 teskeiðum og mótið lauslega kúlur sem eru aðeins minni en golfboltar. 
Bakið í 10-12 mín. Betra að fylgjast með og hafa þær minna bakaðar en meira.
Úr uppskriftinni fékk ég 28 kökur eða rétt tæpar 2 plötur, það er að sjálfsögðu hægt að stækka þær og fá færri stórar kökur.

Þessar eru alger draumur! Maður borðar ekkert voðalega margar en það er bara fínt, kannski ekkert megrunarfæði en hver spáir samt í því þegar við erum að ræða jólabaksturinn? ;)

Ummæli

Vinsælar færslur