Sunnudagsdekur vinkvenna og jarðarberjaterta!


Í gærdag átti ég frábærar stundir með æskuvinkonum mínum. Við höldum alltaf hópinn og þó við hittumst ekkert í hverri viku eða jafnvel hverjum mánuði þá er alltaf eins og við höfum hist í gær. Við hittumst gjarnan í brunch og hver okkar kemur þá með eitthvað á borðið. Mitt framlag var þessi sykursæta bleika jarðarberjaterta en einnig má minnast á algerlega stórkostlegan rétt sem hún Berglind kom með, en þetta er french toast rúllað upp með beikoni og ekta maple sírópi hellt yfir. Stórkostlegur réttur og fallegur á borð. Svava kom með heitan rétt sem var algert gúmmelaði, pínu sterkur og innihélt ólöglega mikið magn af ostum en þannig eiga þeir að vera er það ekki? Elsa færði okkur nýbakað brauð og bleikan drykk sem fór svona vel í glösunum okkar. Við drukkum svo kaffið úr erfðastellinu frá ömmu og deildum leyndarmálum sem safnast hafa upp síðan við hittumst síðast.
Algerlega endurnærandi dagur, er svo ótrúlega lánsöm að eiga svona góðar vinkonur.

Hér má líta betri mynd af french toast-inu sem Berglind kom með og auðvitað fallega ömmubollanum

Þær voru alger tilraunadýr fyrir tertuna en ég á eftir að betrumbæta hana örlítið þar sem neðri botninn varð að smá drullu en mun laga það næst. Bleytti greinilega aðeins of mikið upp í þeim. Ég gerði klassíska uppskrift af svampbotnum en sú sem ég lærði er svona:

Taktu fram 3 alveg eins glös. Settu 3 stór egg í eitt glas. Hveiti í annað sem nær jafn hátt og eggin og sykur í þriðja glasið sem nær upp að sama marki. Taktu 1 msk úr hveitinu og settu kartöflumjöl og 1 tsk af lyftidufti. Sett í tvö 22cm form og bakað við 170°c í ca. 30 mín.

Ég tók svo slatta af frosnum jarðarberjum og afþýddi á djúpum diski, dreifði sirka 2 msk af sykri yfir þau og lét sykurinn leysast upp í safanum. Stappaði þau og setti á annan botninn (næst ætla ég að minnka verulega magnið af safanum). Setti svo jarðarberjasmjörkrem (venjulegt smjörkrem með dágóðu magni af jarðarberjasultu) á hinn botninn og lagði þá saman. Ég smurði þeyttum rjóma utanum tertuna og setti bleikar marengsdúllur ofan á. En þær gerði ég í rauninni bara til þess að nýta eftir smákökugerðina um daginn, en þar urðu eftir 2 eggjahvítur. Ég þeytti þær með 100gr af sykri þar til úr varð marengs, setti smá bleikan matarlit. Sprautaði svo litlar dúllur á plötu, hefði kannski mátt vera með lægri hita en ég trúi því að 120°c í ca 20 mín væri fínt. Geyma þær svo í ofninum yfir nótt.

Algerlega fullkomin í svona dömuboðUmmæli

Vinsælar færslur