Eðlukjúlli


Fyrir langa löngu síðan smakkaði ég heita ostasalsa ídýfu. Hefur verið á borðum í partýum og saumaklúbbum í mörg ár og allir elska þessa dýfu. Þessi klassíska, rjómaostur, salsa og ostur og inn í ofn. Mmm.. Sjóðheit með nachos!
Þessi dýfa gekk svo í endurnýjun lífdaga hjá unglingunum og ungu fólki undir nafninu "eðlan". Það keppast allir við að gera hana og allir elska hana. Þannig að ef þú vilt slá algerlega í gegn hjá krökkunum þínum þá er þessi réttur algerlega fullkominn.
Ótrúlega einfalt og meðlætið getur verið af fjölbreyttum toga.

Ég persónulega er aðeins að slaka á í brauðáti þessa dagana og var því sjálf ekki með nachos eða tortillur með en þess í stað var ég með guacamole-ið fína og risa hrúgu af salati.

Þetta er svo einfalt að þið trúið því ekki!

4 kjúklingabringur skornar í sneiðar þversum, kryddaðar með salti, pipar og hvítlauksdufti
1/2 krukka Santa Maria Salsasósa Mild (stóru krukkurnar með græna lokinu)
3-4 msk af rjómaosti
rifinn ostur eftir smekk

Steikið kjúklingabitana á pönnu og kryddið. Setjið salsasósuna og rjómaostinn út í þegar þeir eru orðnir brúnaðir á báðum hliðum. (Það má alveg setja meira af sósunni og rjómaostinum, magnið er ekkert heilagt). Látið malla í smástund með lokið á pönnunni.
Stráið osti yfir og setjið lokið aftur yfir til þess að bræða ostinn.

Berið fram með öllu því sem ykkur dettur í hug, hægt að setja í tortillur, beint á salat, eintómt með nachos osfrv.

Ummæli

Vinsælar færslur