Gulrótakaka með rjómaostakaramellukremi! Sykurlaus!

Ekki fallegasta kökumynd í heimi, en góð er hún!


Ég hef verið að skipuleggja aðeins hjá mér í eldhúsinu. Elda í frystinn og þess háttar. Finnst fínt að skipuleggja mig aðeins fram í tímann þar sem skólinn byrjar hjá mér í næstu viku og er að fara að taka áfanga sem fylgir alveg ofsalega mikill lestur og ritgerðaskrif. Þá er nú gott að getað tekið út eitthvað tilbúið, hollt og miklu miklu hagstæðara! Skrifa kannski sérstaklega um það síðar. En að máli málanna. Þessi kaka hefur birst hér áður á blogginu: Gulrótakakan góða

Þessi kaka er einfaldari en hún lítur út fyrir að vera. Í alvöru talað! Ég setti hana í 24cm hringform og bakaði við 175°c í líklega svona 25 mín í mínum ofni. Gott að fylgjast bara með.

Kremið er hinsvegar afrakstur tilrauna með Sugarless Sugar frá Now. Það er eitt uppáhalds sætuefnið mitt og gaman að gera tilraunir með það.
Úr varð karamellukrem sem er bara alveg ótrúlega gott. Það sem ég gerði var eftirfarandi:

Setti 50gr af smjöri í pott og bræddi, bætti svo við ca. 1 dl af Sugarless Sugar. Hrærði þetta vel saman, sætuefnið virðist ekki bráðna strax en gerir það á endanum. Bætið við rúmlega 1 tsk af vanillu essence. Hrærið vel við miðlungshita þar til þetta er orðið samfellt og farið að þykkna aðeins.Hér gæti þurft aðeins meira af sætuefninu en þið sjáið bara til.
Takið af hellunni, bætið svo við rúmlega matskeið af rjómaosti og 2 tsk af ferskum.sítrónusafa. Hrærið þar til rjómaosturinn er bráðinn. Látið kólna næstum alveg, hrærið svo upp í kreminu og látið svo á kökuna.
Þetta krem er of gott til þess að vera satt, ég sver það!

Símakökumyndir eru hreint ekkert æðislegar en gefur þó einhverja mynd af útkomunni

Ummæli

Vinsælar færslur