Vinsælustu uppskriftir ársins 2014 og sú fyrsta á nýju ári!

Gleðilegt nýtt ár elsku bestu lesendur og takk kærlega fyrir það gamla!

Eldhúsið mitt tókst algerlega á loft á árinu, í bókstaflegri merkingu! Henti út því næstum fertuga og ónýta og breytti því algerlega, reif niður vegg, fann draumaeldhúsið í Ikea og ný eldunartæki. Við hjónin tókum svo sumarfríið í að setja það upp með dyggri aðstoð fjölskyldunnar.

Bloggið nældi sér í ansi marga nýja lesendur og er ég afar þakklát fyrir. Mér finnst alveg óskaplega gaman að skrifa niður margt af því sem ég er að gera og markmið þessa árs er að vera enn duglegri við það. Ég á það til að taka myndir og skrifa niður á blað það sem ég er að gera en gleyma svo að setja það hingað inn, maður er nú stundum aaalveg!

Snúðarnir góðu voru lang mest skoðaða uppskriftin og var langt á undan öllu öðru sem ég hef birt hér. Það er kannski ekki furða, því þó ég segi sjálf frá þá eru þeir algert lostæti. Auk þess að vera ódýrir, það þarf ekki eiga til mörg dýr innihaldsefni til þess að galdra þá fram: http://eldhusid.blogspot.com/2014/11/snuar-betri-en-ur-bakariinu.html

Einnig skellti ég í sykurlaust bananabrauð og það var nú líka ansi vinsælt! Fullkomið að byrja nýja árið á aðeins hollari bakstri! http://eldhusid.blogspot.com/2014/08/sykurlaust-bananabrau.html

Gratíneraði kjúklingarétturinn sló einnig heldur betur í gegn. Hann birtist í dásamlegri matreiðslubók sem hún Berglind á Gulur rauður grænn og salt gaf út. Fullkominn í matarboðið: http://eldhusid.blogspot.com/2011/01/gratineraur-kjuklingarettur-me-beikoni.html


Nú á nýju ári ætla ég hinsvegar að birta uppskrift af uppáhalds guacamole-inu mínu. Ég gæti borðað það með skeið, en í þetta sinn var ég reyndar með ofnbakaðan kjúkling og fajitas brún hrísgrjón með.

Í þennan mexíkó ættaða unað þarftu eftirfarandi:

4 passlega þroskuð lítil avocado (þessi litlu úr Bónus)
2 meðalstórir þroskaðir tómatar, smátt saxaðir
1/2 fínt saxaður rauðlaukur
1/4 - 1/2 hvítlaukur geiralaus, rifinn á rifjárni eða pressaður
Safi úr einu lime
1 tsk salt (ekki borðsalt, frekar maldon eða kosher)
1/2 tsk cummin

Stappið avocadoið í skál og blandið rest saman við. Geymið í ísskáp í allavega 1 klst áður en þetta er borið fram.Ég ætti kannski að setja niður uppskriftina af hrísgrjónunum líka. Þau eru afar einföld og fín með mexíkóskum mat.

1 bolli brún hrísgrjón
2 bollar vatn
1/2 kjúklingateningur
Suðan látin koma upp og sjóðið í ca 25mín á lágum hita eða þangað til þau eru næstum tilbúin.

1/2 rauðlaukur saxaður
1/2 paprika söxuð
hvítlaukur
1/4-1/2 bréf Fajitas krydd
1/2 bolli vatn

Steikið lauk, papriku og hvítlauk í stutta stund á pönnu, bætið við soðnum hrísgrjónum og blandið saman á pönnunni. Bætið kryddi og vatni út á og blandið saman. Passið samt að hræra ekki of mikið svo þetta verði ekki að graut. Lækkið hitann niður í lægsta og látið malla í stutta stund áður en þetta er borið fram.


Ummæli

Vinsælar færslur