Bananavöfflur - Sykur og hveitilausar




Það hefur örugglega komið fram hérna áður að ég er alveg sérstaklega veik fyrir vöfflubakstri hvers konar. Það sem verra er að ég blæs út eins og blaðra af þessum litlu dúllulegu hveitiklumpum svo ég hef marg oft reynt að finna einhvern aðeins hollari staðgengil. Hef ekki tölu á öllum ógeðis vöfflunum sem ég hef þurft að skrapa af vöfflujárninu mínu!

Þangað til ég skellti í þessa. Það eru nokkur atriði hér sem gera þetta að vöfflum sem haldast saman, eru bragðgóðar OG ég þarf ekki að skrapa þær úr járninu!
Gallinn er hinsvegar sá að uppskriftin kallar á frekar sérhæft hráefni auk þess sem ég nota belgískt vöfflujárn en ekki venjulegt. En það er alveg þess virði að kaupa hráefni í þessar vöfflur því það þarf alveg svakalega lítið af því (endist í margarmargar vöfflur) og þegar maður smakkar einu sinni, þá verður þetta að hefð. Ég hef líka ætlað að gera bara venjulegar fyrir aðra fjölskyldumeðlimi en dóttir mín kýs frekar þessar umfram þessar venjulegu. Það segir sitthvað!
Ég gef uppskrift af einfaldri en hún er frekar lítil og dugar í 2 vöfflur í minni kantinum.

Innihald og aðferð eru eftirfarandi:

1 þroskaður lítill banani eða hálfur stór
1 stórt egg
1 tsk vanilluessence eða 2 tsk vanilludropar
1 tsk kókosolía eða bragðlaus jurtaolía
1 tsk kókoshveiti
1 tsk möndlumjöl
1/2 tsk möluð hörfræ
3/4 tsk lyftiduft
nokkur saltkorn
Pam sprey til þess að spreyja á vöfflujárnið

Byrjið á því að stinga vöfflujárninu í samband.
Setjið egg, banana, vanilludropa og kókosolíu í blandara og þeytið mjög vel saman, eða þar til blandan fer að freyða.
Setjið svo bananablönduna í litla skál og blandið þurrefnum varlega saman við. Bíðið í svona 2 mín því kókoshveitið dregur í sig vökvann, hrærið þá aðeins í deiginu. Ef mér finnst deigið aðeins of þykkt (það á samt að vera mjög þykkt, en samt ekki alveg eins og leir, getur farið eftir stærð eggja og banana hvernig það er) þá bæti ég nokkrum dropum af möndlumjólk við.
Spreyjið létt yfir járnið og skiptið deiginu í tvær vöfflur (járnið mitt býður upp á tvær ferkantaðar vöfflur) og bakið þar til þær eru vel brúnar.

Já járnið mitt er eiginlega alveg eins og þetta:



Ég hef oft jarðarberja chiasultu með, vanillurjóma og ber. Eða bara smá rjóma og banana.. eða bara chiasultu.. einmitt, það er svo margt hægt að gera!

Kannski ég skelli bara inn uppskrift af sultu í leiðinni? Já, þessi klárast alltaf hratt og er súper holl og góð.

Jarðarberja chiasulta:
Setjið ca 2 bolla af frosnum jarðarberjum í pott og stráið 1/2 bolla af Sugarless sugar frá Now yfir berin. Byrjið á því að hita við lágan hita en svo er hægt að auka aðeins þegar berin eru farin að bráðna saman við "sykurinn". Setjið þá ca. 2 msk af chiafræjum yfir og sjóðið í svona hálftíma eða þar til berin eru orðin algert mauk og orðið eins og sulta.
Þessi sulta er alveg ótrúlega fersk og góð og hægt að leika sér mikið með hana, setja öðruvísi ber eða jafnvel mangó.

Í alvöru, er eitthvað girnilegra en vöfflur og kaffi? 

Ummæli

Vinsælar færslur