Ofnbakaður hafragrautur með bláberjum og bönunum




Hvað eru mörg bé í því?

Já ég hef séð á vafri mínu á erlendum uppskriftarsíðum, allskonar útgáfur af bökuðum hafragrautum. Það hefur verið lengi á "To do" listanum mínum að gera svoleiðis en það var ekki fyrr en nú í hádeginu sem ég ákvað að láta verða af því. Þvílík og önnur eins snilld. Sér um sig sjálft í ofninum og bragðast eins og hin besta kaka, enginn viðbættur sykur og stútfullt af vítamínum og steinefnum. Það er hægt að nota önnur ber eða aðra ávexti en ég mæli þó eindregið með þessari útgáfu.
Ég notaði frosin bláber sem ég fékk í Bónus, ofsalega góð og klessast ekki eins og önnur sem ég hef prófað.

Í grautinn þarftu eftirfarandi:

2 bolla af grófum höfrum
1/2 tsk sjávar-eða himalaya salt
1 1/2 tsk kanil
1 tsk lyftiduft, vínsteins eða venjulegt
2 bolla af mjólk (skiptir ekki máli hvaða, ég notaði heslihnetu)
2 tsk vanilludropar
1 stórt egg
1 msk bráðin kókosolía eða ósaltað smjör
1/4 - 1/3 bolli Sugarless sugar eða Via health sætan, ég notaði 1/4 og fannst hann alveg nógu sætur
2 þroskaðir bananar
1 bolli bláber ( má alveg vera meira eða minna, ráðið alveg magninu)

Byrjaði á því að hita ofninn í 180°C. Ég skar svo bananana í sneiðar og setti í botninn á frekar litlu ofnföstu móti. Stráði helmingnum af berjunum þar yfir. Tók svo til tvær skálar og blandaði þurrefnum saman í aðra og þeytti blautu efnunum + sætunni saman með písk í hinni. Stráði svo hafrablöndunni þurri yfir bananana og vökvanum því næst þar yfir. Stráði svo restinni af berjunum yfir og bakaði inni í ofni í ca. 35-40mín.

Líka ótrúlega girnilegur svona óbakaður!


Grauturinn fékk að kólna aðeins á meðan ég tók myndir en vá, þetta er nýji uppáhalds spari morgunmaturinn minn (eða hádegismatur). Alger snilld að bjóða upp á hann á brunch hlaðborði, er örugglega nóg fyrir að minnsta kosti 4 mjög svanga.

Skúbba vel á diskinn!


Ummæli

Vinsælar færslur