Cheerios hnetusmjörsbitar




Nú er ég dottin í ruglið. Í alvöru. Þetta er svona uppskrift sem er ekki einu sinni uppskrift. Svo hræðilega allt allt of einfalt og inniheldur einungis ÞRJÚ innihaldsefni.

Sko, þegar ég var lítil var Rice Krispies miklu dýrara en gult Cheerios. Þessvegna var oft meira um kökur eða nammi gerðar úr því, eða heilinn á mér hefur allavega sannfært mig um að svoleiðis hafi það verið.

Allt í einu mundi ég eftir þessu. Klístrað nammi eins og Rice Krispies kökurnar sem allir þekkja, nema bara með Cheerios. Og þvílík heppni, á alltaf til Cheerios og átti hin tvö innihaldsefnin inni í skáp. Þetta er sumsé uppskrift sem hefur sést víða á Pinterest og mér dettur ekki í hug að eigna mér hana. Eða þetta er svona blanda af uppskriftum þaðan. Hún er ekkert heilög og það má tvöfalda og þrefalda og bæta við hnetum eða öðru nammi. Jafnvel setja súkkulaði ofan á, hugsanlega hvítt súkkulaði? Möguleikarnir eru endalausir en bara svona eitt og sér er þetta alveg nógu sætt og alveg nægilega mikil snilld.

Það sem þú þarft:

1/2 bolla af sírópi (nú eða hunangi)
1/2 bolla af hnetusmjöri (ekki hollu týpuna, mætti gjarnan vera gróft)
3 bollar af gulu Cheerios-i

Bræðið saman síróp og hnetusmjör í meðalstórum potti þar til það er bráðið vel saman og fer að bubbla. Takið af hellunni og bætið seríósinu við. Þjappið ofan í ferkantað form og kælið vel. Skerið svo í bita. Það er líka hægt að setja þetta í muffins form, svona eins og Rice Krispies kökurnar góðu.
Hugsanlega er best að gera bara einfalda uppskrift ef það er ekki verið að undirbúa afmæli. Þetta hverfur ískyggilega hratt!


Ummæli

Vinsælar færslur