Haframjölskaka með karamellukókos toppiÉg er í hópi þeirra sem elska sjónvarpsköku. Þið vitið, þessi ljósa dúnmjúka kaka með vanillubragði og kókoskaramellubráð ofan á. Mmmm..
Ég elska líka kanil.. og haframjöl.. Svo þegar ég fann þessa uppskrift á vafri mínu um netheima, sá ég strax að þessa yrði ég að prófa. Setti hana á "to do" listann minn. Þið vitið, þennan sem allt fer á sem á að græjast eftir próflok. 
Þannig í dag fékk ég tækifæri til þess að prófa. Ég ákvað að baka þessa og aðra til reyndar sem ég mun setja hingað inn síðar (það er alveg tilefni í sér færslu!)

Þessi haframjölselska, dúnmjúk og djúsí, með smá kanilkeim, smá karamelló toppi. Örugglega heldur ekkert vont að hafa ís með henni, eða smá rjómaslettu. Það góða samt við hana er að hún krefst einskis af manni, hráefnin eru þannig að maður á þau alltaf til (eða ég að minnsta kosti!) og er þónokkuð fljótleg. Ekta svona til að skella í á sunnudegi eða henda í rétt áður en saumaklúbburinn mætir.

Ég er mjög lítið í að birta uppskriftir sem koma ekki úr eigin smiðju en ég verð bara að setja þessa inn:

Í kökuna sjálfa:

1 1/2 bolli sjóðandi vatn
1 bolli grófvalsaðir hafrar
1 bolli púðursykur
1 bolli sykur
1/2 bolli mjúkt smjör
2 egg við stofuhita
1 1/3 bolli Kornax hveiti
1 tsk kanill 
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt

Kókoskaramella
1/2 bolli smjör
1 bolli púðursykur
1 msk nýmjólk eða rjómi
1 bolli kókosmjöl

Aðferð:

Hitið ofninn í 175°C og takið fram skúffukökuform eða stórt kringlótt (ég var búin að gleyma að skúffukökuformið mitt er ennþá niður í vinnu svo ég notaði stóran pie disk, líklega um 28cm í þvermál).
Sjóðið vatnið og hellið yfir hafrana í skál og setjið til hliðar. Þeytið saman þar til létt og ljóst, smjörið, sykurinn og eggin. Í annarri skál blandið saman þurrefnum. Blandið svo saman með sleikju, um það bil helmingnum af hveitinu saman við sykurblönduna, hrærið svo höfrunum út í og rest af hveitinu. Setjið deigið í formið og bakið í ca. 30 mín, fer eftir ofnum þó. Takið kökuna út og kveikið á grillinu í ofninum og lagið karamelluna.

Fyrir karamelluna, þá blandið saman sykri, smjöri og mjólk í potti, hitið að suðu og látið malla í eina mínútu, bætið þá kókosnum saman við og smyrjið yfir kökuna með sleikju. 
Setjið undir grillið í svona 2-3 mínútur, en eins og með kökuna, þá verður bara að fylgjast vel með  þar sem grillin í ofnunum geta verið afar misjöfn, sumstaðar gæti 1 mínúta verið alveg nóg. 

Þessi er alveg komin til að vera!

Uppskriftin er fengin héðan: http://www.tasteandtellblog.com/oatmeal-cake/

Ummæli

Vinsælar færslur