Kókos bananabrauð



Í dag er einn af "þessum dögum". Heima með veikt barn og frekar tómlegt um að litast í skápunum. Hef ekki nennt að fara út í búð en átti slappa banana sem mig langaði að gera eitthvað við. Yfirleitt liggur nú beinast við að gera bananabrauð svo það er bara það sem ég gerði! Notaði enga uppskrift og skúbbaði bara einhverju í blandarann og svo í skál. Þaðan í formið og beint inn í ofn. Svo var þetta bara svakalega fínt brauð! Átti nú alveg von á því reyndar þar sem bananar eru góðir og kókos jafnvel betri, saman getur þetta ekki klikkað!

Sem betur fer er gott að frysta bananabrauð því eins fáránlega og það hljómar er ég sú eina á heimilinu sem borða það. Sumt fólk er auðvitað bara ekki alveg í lagi! ;)

3 þroskaðir bananar
2 msk olía
2 stór egg
3 msk kókospálmasykur eða hunang
1 tsk kardimommur malaðar
3 dl fínt spelt eða hveiti
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 dl fínt kókosmjöl +  smá til þess að setja ofan á (má líka alveg vera gróft)

Hitið ofninn í 175°C með blæstri.
Bananar, olía, egg og sykur eða hunang sett saman í blandara og þeytt mjög vel. Blandan er svo færð í skál og þurrefnum hrært varlega saman við með sleikju. Deigið er því næst sett í aflangt form og bakað í ca. 45 mín eða þar til prjónn sem stungið er í brauðið kemur hreinn út.
Dásamlegt bara eitt og sér eða með smá smjöri.

Ummæli

Vinsælar færslur