Kalkúnabollur með hvítlaukssósu


Jæja, er ekki fínt að fara að vekja bloggið aðeins aftur eftir sumarfrí? Held það bara!
Nú er skólinn byrjaður hjá mér af fullum krafti og lífið að komast í fastar skorður eftir sumarið. Þá fer ég í þann gír að skipuleggja betur kvöldmatartímana hjá okkur, gera matseðla og reyni að sameina hollustu og hagkvæmni sem gengur, tja svona og svona. Segjum það bara ;)
Þessi uppskrift sameinar hinsvegar þetta tvennt. Kalkúnahakk er hægt að fá á góðu verði í Nettó. Fæst frosið í rúllum og er 100% hrein afurð.
Ég hef notað það í pastarétt og nú þessar bollur og er alveg svakalega hrifin af þessu kjöti. Það er magurt án þess að verða þurrt og minnkar nánast ekkert á pönnunni. Það hlýtur að teljast kostur þegar ég hef verið að lenda trekk í trekk í því að kaupa nautahakk sem hverfur á pönnunni. Nenni ekki svoleiðis töfrabrögðum!

Þessar bollur eru frábærar með hrísgrjónum eða kartöflum og salati. Ég notaði kalda hvítlaukssósu með en það er örugglega líka mjög gott að gera góða ostasósu svona spari eða aðra heita sósu.600gr kalkúnahakk
1 egg
1 dl brauðrasp
saxaður vorlaukur, græni hlutinn
2 hvítlauksrif
rifinn parmesanostur
rifinn cheddarostur + chili
salt og pipar

Setjið allt saman í skál og blandið vel með höndunum, leyfið hakkinu að bíða í svona 15 mínútur svo að raspið nái að draga aðeins í sig vökvann. Mótið svo bollur aðeins stærri en golfkúlur og setjið í eldfast form eða á bökunarplötu.
Bakið í ofni í 25-30 við 180°c.

Hvítlaukssósa

1 dl 18% sýrður rjómi
2 hvítlauksrif kramin
1 tsk hunang
1 tsk dijon sinnep
salt og pipar
Þurrkuð steinselja
Hrærið öllu saman í skál og látið bíða á meðan bollurnar steikjast í ofninum

Ummæli

Vinsælar færslur