Turkisk Peber bollakökur

Ó ég er búin að hugsa þetta svo lengi. Búin að vera að útfæra þetta í huganum hvernig sé best að yfirfæra Tyrkisk Peber yfir í kökukrem. Ég ákvað að besta leiðin væri að reyna að bræða brjóstsykurinn saman við smá vatn og gera síróp sem ég myndi svo þeyta saman við krem grunn. Þetta gat svo sem alveg klikkað en mér til mikillar ánægju kom þetta ótrúlega vel út!
Tyrkisk Peber er auðvitað í öllum myndum alveg dásamlegt sælgæti. Og ísinn í Valdísi - óbojj! (Það er alveg hægt að tvöfalda þessa uppskrift og fiffa það í ís, ég er eiginlega alveg viss um það!)

Þetta er mjög einfalt að gera en þarf smáræðis þolinmæði þegar brjóstsykurinn er bræddur.

Það sem þarf í kremið er eftirfarandi:

20 stk Tyrkisk Peber brjóstsykursmolar
2msk vatn + 1msk vatn (útskýri nánar)
1 dl Crisco í bláu dollunum (má örugglega alveg nota smjör eða smjörlíki en ég þori samt ekki að fara með það)
2 dl flórsykur
1 msk sjóðandi vatn

Setjið brjóstsykurinn í lítinn pott með 2 msk af vatni og byrjið að hita varlega, ekki setja á hæsta hita í óþolinmæðiskasti! Bræðið sykurinn varlega saman við vatnið en svo kemur að því að hann fer að klumpast saman og verður ein stór klessa. Það er allt í lagi, það er bara normal!


Þá er gott að hækka aðeins hitann og láta þetta bubbla svolítið en passið að hræra alltaf í. Þegar þetta er að verða að sírópi er gott að bæta þessari auka matskeið af vatni út í.
Látið sjóða saman í síróp þar til allur brjóstsykurinn er uppleystur. Takið þá pottinn af hellunni.

Setjið Crisco og flórsykur saman í skál og þeytið aðeins saman, feitin verður eins og litlar baunir í sykrinum.
Crisco og flórsykur saman!



Búið að hræra aðeins saman



Bætið þá sírópinu öllu út í og þeytið saman. Þetta lítur þá eiginlega út eins og gráar klessur.
Ekkert sérlega girnilegt svona, en verður skárra!
Þá er nauðsynlegt að setja 1 msk af sjóðandi vatni út í og þeyta vel. Þá umbreytist þetta í dásamlega mjúkt og gott krem.
Að borða það beint upp úr skálinni í skeið er líka möguleiki...
Ég bakaði klassíska súkkulaðikökuuppskrift í bollakökuformum og setti kremið á þær. Það var mjög fínt en langar að prófa þetta krem næst með öðru kökudeigi. Þið gætuð kannski sent á mig hugmyndir og/eða sýnt mér myndir af því hvernig þið notið kremið?

Kremið komið á en litu hálf naktar út...



Tóku nokkra brjóstsykra og muldum þá í matvinnsluvélinni

Sérleg aðstoðarkona mín hjálpaði til við að skreyta kökurnar!

Ég notaði þessa súkkulaðikökuuppskrift en ég helmingaði hana bara og það kom flott út:

2 bollar hveiti
1 1/2 b. púðursykur (eða venjulegur af þú átt hann ekki til)
1/2 b. kakó
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 tsk lyftiduft
2 stór egg
1 b. súrmjólk eða AB mjólk
3/4 b. matarolía (alls ekki ólífuolía)
2 tsk vanilludropar
1/2 b. sjóðandi vatn.


Kakan:
Öllu nema vatninu skellt í skál og hrært aðeins saman, svo er vatnið sett við og klárað að hræra í dásamlegt deig. Mikilvægt svo eggin sjóði ekki með heita vatninu.
Bakið í miðjum ofni við 175°c í 25 mín. Fer eftir ofnum ath það! 


Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur