Konudagstertan - vanillubotnar, rjóma-rjómaostakrem, jarðarberjamauk og fersk jarðarber


Rjómaostakrem, jarðarber og vanilla - þetta er eitthvað rómantískt og fallegt. Einfalt en samt svo elegant.
Eftir því sem ég eldist færist ég frekar frá þungum súkkulaðikökum og svona "sælgætiskökum" og vel frekar eitthvað ferskara. Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu minni er ég ótrúlega veik fyrir öllu með jarðarberjum og verða þau því oft fyrir valinu þegar þarf að velja í aðalhlutverk í kökum.
Nú fer að renna upp þessi jarðarberjatími. Það verður auðveldara að nálgast berin og oft getur maður hitt á einhvers konar tilboð, sér í lagi ef það er konudagur eða valentínusardagur. Yfirleitt þegar hittir svoleiðis á, enda ég með fullan ísskáp af berjum og finn svo útúr því hvað ég ætla að gera við þau. Stundum borðast þau bara eintóm en svo getur líka farið svo að þau endi í köku.

Þessi kaka varð til úr allskonar, langaði í ljósa botna, smá rjóma, og vel af berjum og þetta var útkoman. 3ja hæða bomba!
Ég fór með flykkið með mér í kaffi til tengdaforeldranna um síðustu helgi, svona rétt til þess að leyfa fólki að smakka og fá smá gagnrýni en það er skemmst frá því að segja að hún var engin. Einróma álit að þessi terta sé ein sú allra allra besta sem fólk hefði smakkað og flestir fengu sér 2x á diskinn. Sumir 3x! ;)

Ég notaði þrjú 22cm form en það er ábyggilega í fínu lagi að skipta í tvö stærri form og skilja þá bara smá deig eftir ef það er einhver afgangur.

Í botnana fer:

3 bollar rautt Kornax hveiti
2 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
3/4 bolli mjúkt smjör
1 1/2 bolli sykur
3 egg
1/2 bolli sýrður rjómi eða súrmjólk
3/4 bolli nýmjólk
3 tsk vanillu essence

Aðferð:
Byrjið á því að hita ofninn í 165°C á blástur.
Setjð smjör og sykur í hrærivélaskál og þeytið vel með þeytaranum. Bætið við einu eggi í einu og þeytið vel á milli, munið að skrapa niður hliðarnar á skálinni. Þeytið svo vel saman þar til eggja blandan verður mjög ljós og létt.
Setjið þurrefnin í eina skál og blautu í aðra. Sigtið þurrefnin út í skálina og byrjið að hræra varlega með sleikju. Bætið mjólkurblöndunni varlega saman við. Deilið í formin og bakið í ca. 30-35mín.

Á meðan botnanir bakast geri ég jarðarberjamaukið. Mér finnst allt annað og miklu betra að gera þetta heldur en nokkurntímann að notast við sultu.
Hér blanda ég saman í skál:
2 bollum af frosnum jarðarberjum
og strái yfir
1/4 bolla af sykri.
Þetta set ég svo í örbylgjuna á defrost. Það á alls ekki að hita þetta, heldur bara þannig að hægt sé að stappa berin við sykurinn sem bráðnr í safanum. Setjið þessa blöndu svo til hliðar.

Þegar botnarnir eru tilbúnir verða þeir að kólna alveg og á meðan það gerist er gott að gera kremið sem er sáraeinfalt. Í það fer:
200gr rjómaostur við nánast stofuhita, alls ekki nota ískaldan
350-400gr flórsykur (eftir smekk)
400ml rjómi
2 tsk vanilluessence
1/2 tsk jarðarberja essence (má sleppa en fást annars í Kosti)

Setjið rjómaostinn í hrærivélaskálina og þeytið með þeytaranum. Bætið við dropum og flórsykri og þeytið mjög vel. Skafið kremið í aðra skál og setjið rjómann í hrærivélaskálina og stíf þeytið hann. Passið bara að þeyta ekki of mikið svo hann verði að smjöri! ;)
Hrærið því næst rjómaostablöndunni við rjómann og þá er kremið tilbúið.

Svo er bara að skera fersk jarðarber eftir smekk í sneiðar og þá má fara að raða kökunni saman.

Ég setti einn botn á disk og smurði jarðarberjamaukinu á botninn en ekki alveg út á brún því kremið sem fer svo ofan á ýtir maukinu lengra út á brúnina og út fyrir hana. Gott að bíða samt í svona 1 mín á milli þess sem maukið fer á og kremsins sem fer ofan á. Ofan á kremið fer svo eitt lag af sneiddum jarðarberjum. Endurtakið með næsta botn. Síðasti botninn fer svo ofan á hina tvo með krem og fersk ber ofan á.
Það þarf ekki að nota alveg allt kremið og smá jarðarberjamauk varð einnig eftir.


Hvað er fallegra!?


Þó ég eigi nú mann er ekkert þar með sagt að maður þurfi mann til þess að gera vel við sig og sínar! ;)
Verði ykkur að góðu!Ummæli

Vinsælar færslur