Sítrónusnúðar









Eins ótrúlega og það hljómar þá elska ekki allir kanil! Furðulegt ekki satt?!

Nei grín, svo sem ekkert furðulegt en þá er gott að hafa einhverja snúðauppskrift í bakhöndinni þar sem honum er sleppt. Og þar sem ég er eldheitur aðdáandi sítróna þá kemur eiginlega ekkert annað til greina en að reyna að sameina sítrónubragðið við snúða. Það getur bara ekki klikkað!?

Ég er svolítið hrifin af Cinnabons eða kanilsnúðum með rjómaostakremi. Þeir eru bakaðir í eldföstu móti og látnir klessast saman og kremið sett á þegar þeir eru heitir. Þetta verður þá svolítið eins og snúðakaka eiginlega. Ég prófaði að taka uppskrift af Cinnabons og breytti henni þannig að sítrónubragðið myndi njóta sín sem best.

Þetta er þá útkoman, alveg ofsalega góðir, svolítið vel sætir en það gerir svo sem ekkert til er það?

Deigið er svona:

1/2 bolli fingurvolg nýmjólk
1 1/4 tsk þurrger
2 1/4 bollar brauðhveiti frá Kornax (í bláum pokum)
1/2 tsk salt
1/4 bolli sykur
Rifinn börkur og safi af 1/2 sítrónu
1 stórt egg við stofuhita
40gr bráðið smjör - lítilllega kælt
1/2 tsk sítrónudropar

Setjið mjólkina í skál og stráið gerinu yfir, látið bíða í ca. 5 mínútur. Bræðið smjör og setjið til hliðar.
Því næsti blandiði saman þurrefnum í hrærivélaskál og setið hnoðarann eða krókinn á.
Hrærið þurrefnum aðeins saman og bætið svo gerblöndunni, eggi, börk og sítrónusafa, sítrónudropum og bráðnu smjörinu í skálina. Hnoðið í hrærivélinni í ca. 5 mínútur, þannig að deigið verði slétt og fellt. Látið hefast í fyrstu hefun í 40 mín á hlýjum stað.

Fylling:
1/3 bolli sykur
50gr mjúkt smjör
Rifinn börkur og safi úr 1 sítrónu

Setjið allt saman í skál og hrærið eins vel saman og hægt er. Hitið svo í örbylgju á hæsta styrk í ca 10 sekúndur til þess að mýkja þetta aðeins.

Fletjið deigið út í ferhyrning og smyrjið fyllingunni á deigið. Skiljið smá kant eftir. Rúllið deiginu upp og skerið í 8 snúða.

Fyllingin sett á, svo er rúllað upp og skorið í snúða


Hitið ofninn í 50°C. Raðið snúðunum í lítið fat, úðið ofninn með vatni og aðeins yfir snúðana og látið hefast í 45 mínútur eða þar til þeir hafa margfaldast að stærð.

Hérna eru þeir hefaðir. Ég sett reyndar afganginn af fyllingunni yfir en næst myndi ég sleppa því.
Þegar snúðarnir hafa hefast takið þið þá útúr ofninum og hitið ofninn í 200°C. Bakið í 15-20mín eða þar til þeir eru orðnir vel gylltir.

Vel bakaðir og fínir

Á meðan snúðarnir eru í ofninum útbúið þið kremið:

50gr mjúkur rjómaostur
20gr smjör
1 bolli flórsykur
safi og börkur af 1/2 sítrónu

Þeytið saman og smyrjið kreminu yfir heita snúðana. Það þarf alls ekki að setja allt kremið á, né fyllinguna. Það er vel hægt að stjórna því hversu sætir þeir verða.

Dúnmjúkir!



Ummæli

Vinsælar færslur