Doughnuts - Donuts - Kleinuhringir... Já, betri en úr bakaríi!Ég er alltaf að reyna að gera sem flest heima hjá mér. Það sameinast í mér nískupúki (ég vil samt meina sparsemi, svona þar sem ég er nemi) og sælkeri. Það getur oft verið pínu flókið en þegar kemur að bakstri finnst mér gaman að prófa mig áfram með bakkelsi sem fæstir nenna að standa í að gera. Þar sem verðmunurinn getur verið svo bilaður á heimabakstri og því sem er keypt í bakaríi finnst mér áskorunin sérlega skemmtileg, svo ég tali nú ekki um þegar vel tekst til.

Eitt af því sem ég hef aldrei lagt í að gera eru kleinuhringir. Ég hef prófað að baka flest en þetta er eitt af því sem hefur alltaf vaxið mér í augum. Ég hef séð ótal uppskriftir og "pinnað" þær á Pinterest og hvaðeina en lét verða af því núna um helgina að prófa.
Og ég verð að segja að þetta tókst miklu miklu betur en ég þorði að vona. Það var samdóma álit þeirra sem komu í kaffi til að bragða á afrakstrinum að þeir væru mun betri en þeir sem hægt er að fá í bakaríum landsins. Líklega er það vegna þess að í þessum er meðal annars íslenskt smjör og egg en ekki duft blandað með vatni eins og svo mörg bakarí gera.

Þessir kleinuhringir eru svolítið "slow-cook" verkefni en eru alls ekki flóknir þó. Hefunin tekur frekar langan tíma en það er alveg 100% þess virði.

Uppskriftin er ekki frá mér komin en ég ætla að þýða hana hér og segja frá því hvernig ég gerði þetta í myndum. Ég nota amerísk bollamál sem tekur ca, 240ml.

Í kleinuhringina þarf:
1 og 1/8 bolla ylvolga nýmjólk
1/4 bolli sykur
2 og 1/4 tsk þurrger
2 stór egg aðeins hrærð
140gr brætt smjör
4 bollar blátt Kornax hveiti
1/4 tsk salt

2 kubbar af Palmín feiti

Setjið mjólkina í hrærivélaskál og hrærið sykurinn saman við. Bætið þurrgeri út í látið bíða í 5 mínútur, bræðið smjörið en passið að hita það ekki of mikið. Sláið eggin saman í skál og setjið út í mjólkurblönduna ásamt smjörinu og hrærið saman. Setijið hveitið og salt út í blautefnin og hnoðið með hnoðaranum í 5 mínútur.
Fyrir hefun

Látið standa í skálinni í 10 mínútur. Að þeim liðnum mótið deigið í kúlu og setjið í skál sem hefur verið smurð létt með matarolíu. Setjið plastfilmu yfir skálina og hefið í ísskáp yfir nótt.

Eftir nóttina í ísskápnum var deigið orðið svona

Þegar steikja á hringina er deigið tekið útúr ísskápnum og það flatt út með smá hveiti ef þarf. Það er gott að hafa það kannski tæpan sentimetra á þykkt. Skerið hringina út með kleinuhringjajárni en af því að ég átti það ekki til notaðist ég við glas og tappa af kaffisírópi. Örugglega hægt að nota hvað sem er, bara skoða hvað er til í skápunum!

Þrýsti niður á kúluna og setti smá hveiti

Flatt út


Loks eru kleinuhringirnir skornir út

Setjið kleinuhringina og "götin" sem skorin eru út á bökunarpappír. Þegar það er búið að skera úr úr öllu deiginu er ofninn hitaður í 45°C og hann úðaður að innan með vatni. Kleinuhringirnir eru látnir hefast í ofninum í 45 mínútur. Að þeim tíma loknum eru þeir teknir út úr ofninum og slökkt á honum.

Við steikjum "götin" líka ;)

Setjið palmínið í þykkbotna pott og hitið upp í 180°C, mæli með því að setja viftuna á fullt líka. Setjið gott lag af eldhúspappír á disk og bökunarplötu, hafið svo plötu með hefuðum hringjunum við hliðina á pottinum.

Feitin að bráðna og hringirnir orðnir "puffy" og flottir eftir ofnhefun

Takið þá varlega af plötunni og steikið 2 í einu í pottinum. Það er ekki gott að setja fleiri út í í einu því þá kólnar feitin of mikið. Ég sný þeim við þegar þeir eru orðnir gylltir og veiði þá uppúr með gataspaða, er reyndar með annan stálspaða á móti sem ég nota til þess að snúa hringjunum. Set þá beint á disk með pappír sem er við pottinn en færi þá svo þaðan yfir á bökunarplötu með pappír og safna þeim þar.

Chillað í pottinum...

Þegar allir eru steiktir og "götin" líka gerði ég 2 týpur af glassúr en það er hægt að setja allt á þá sem hugurinn girnist.

Fullkomnir! Eða svo gott sem...

Ég gerði "maple" og súkkulaði glassúr og skreytti með kökuskrauti og söxuðum pekanhnetum. Það er hægt að sleppa því að setja glassúr og sigta bara flórsykur yfir eða jafnvel sleppa því að gera gat og sprauta annað hvort nutella eða sultu inní. Það er bara allt hægt!


Loftmiklir og mjúkir!

Möguleikarnir eru endalausir í kremum og skreytingum!

Uppskrift fengin héðan: http://www.blessthismessplease.com/2012/07/pioneer-womans-glazed-donuts.html

Ummæli

 1. Þessir lúkka vel, ég hef verið að gera svona,aðeins önnur uppskrift, ætla að prófa þessa um páskana :)

  SvaraEyða
 2. Um að gera, það væri svo gaman að fá línu um hvernig tókst til :)
  Kv. Valla

  SvaraEyða
 3. Prufaði þessa en það vantar alveg eitthvað bragð af kleinuhringjunum. Prufa vanilludropa eða eitthvað svoleiðis. Annars fínir og ekki erfitt að gera þá.

  SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur