Pekanhnetu-hlynsíróps og beikon snúðar





Snúða-óða konan sem ég er varð að prófa þessa hugmynd en ég hef oft séð þessa blöndu á erlendum matarbloggum, eða "maple-peacan-bacon" verkefnið. Þetta hljómar kannski ótrúlega skrýtið að setja beikon á eitthvað sem er sætt en í raun er það alveg fullkomið. Það kemur bara smá saltbragð með kreminu og hnetunum og myndar einhverja alveg sérstaklega dásamlega blöndu.
Þetta er nokkurskonar sambland af "Cinnabon" snúðum (þessum með rjómaostakreminu ofan á) og einhverri snúðaköku. Veit ekki hvernig ég get lýst þessu betur.

Kremið er reyndar smá slump en ég held að ég muni nú alveg hvað fór ca. af hverju en það er ekkert heilagt og endilega smakkið til, ef ykkur finnst þið þurfa að þykkja eða setja meira af bragðefnum eða sírópi þá er bara um að gera að hafa það eins og maður kýst helst.
Ég mæli einnig eindregið með því að rista pekanhneturnar en þá kemur svo gott bragð af þeim.

Þessir snúðar eru alls ekki flóknir og alveg tilvaldir í helgarbaksturinn og henta að mínu mati sérlega vel á "brunch" hlaðborð.

Í snúðana sjálfa:

1 bolli fingurvolg mjólk
2 egg
75gr bráðið smjör, aðeins kælt
4 1/2 bolli blátt Kornax hveiti
1 tsk salt
1/2 bolli sykur
2 1/2 tsk þurrger

Setjið mjólk og ger saman í hrærivélaskál og látið bíða í 5 mínútur. Passið ykkur á því að mjólkin verður bara að vera rétt fingurvolg því ef hún er heitari drepst gerið og snúðarnir lyfta sér ekki. Bætið því næst eggjum og smjöri út í mjólkurblönduna og blandið aðeins saman. Setjið hveiti, salt og sykur út í og hnoðið með hrærivélinni í 5 mínútur. Það gerir snúðana extra mjúka og fína að hræra deigið vel. Mótið svo deigið í kúlu og setjið plastfilmu yfir skálina og hefið í 40 mín.


Fylling:
50gr bráðið smjör
1/2 bolli púðursykur
1 1/2 msk kanill

Þegar deigið er hefað er það flatt út í ferning og deigið smurt með bráðnu smjörinu og kanilpúðursykrinum stráð yfir.
Rúllið deiginu upp og skerið í átta snúða. Mér finnst best að skera smá rák í rúlluna akkúrat í miðjuna og svo aftur í miðjuna osfrv. en þannig verða snúðarnir jafnastir að stærð.
Smyrjið ofnfast mót með smá bráðnu smjöri og leggið snúðana á fatið.
Hitið ofninn í 50°C og úðið hann að innan með vatni, setjið snúðana á grind í miðjum ofninum og spreyjið aðeins með vatni og hefið í ofninum í 45 mín.
Á meðan snúðarnir hefast er gott að steikja beikonið og rista hneturnar. Ég skar beikonið fyrst í litla bita og steikti það þar til það varð mjög stökkt. Ég setti það svo til hliðar á pappír, þurrkaði pönnuna og ristaði svo hneturnar.

4-5 frekar stórar beikonsneiðar
50gr pekanhnetur ristaðar

Þegar snúðarnir hafa hefast þá eru þeir teknir úr ofninum og hann hitaður upp í 200°C. Þegar ofninn er kominn upp í bökunarhita eru þeir settir inn í miðjan ofninn og bakaðir í ca. 15 mín. Mæli þó með því að fylgjast með tímanum þar sem ofnar eru svo misjafnir, gætu þurft styttri eða lengri tíma.
En þegar snúðarnir eru að bakast er kremið gert.

Krem:
100gr smjör
2 (+)bollar flórsykur
2 tsk maple dropar (fást þó líklega ekki hér)
eða 2-3 msk maple síróp í staðinn
Smá nýmjólk ef þarf til að þynna (aðallega ef maple droparnir eru notaðir)

Bræðið smjörið í potti og setjið því næst flórsykur og síróp eða bragðefni út í og hrærið vel með písk.
Þegar kremið er orðið eins og vel þykkur glassúr og kekkjalaust er því dreift yfir snúðana og hneturnar og beikonið strax sett á.

Verði ykkur að góðu!

Ein extreme close up! ;)


Ummæli

Vinsælar færslur