Bragðmikil Tælensk Kjúklinga-núðlusúpa

Ég er í einhverri afneitun um að haustið sé á leiðinni. Finnst eins og það sé farið að kólna og skólinn bíður mín handan við hornið. Til þess að staðfesta endanlega þennan grun minn um að sumri sé farið að halla er ég komin með brjálæðislega mikið kvef og þurfti því eitthvað heitt og sterkt til þess að reka út þessa kvef-anda!

Sko, mig langaði rosalega í núðlusúpu af Noodle Station en þeir staðir eru bara svo langt frá mér að ég hafði ekki þrek í að keyra alla leiðina þangað. Ég gúgglaði því bara allskonar uppskriftir og blandaði saman nokkrum með tilliti til hvað ég ætti í ísskápnum. Ég á yfirleitt alltaf til allskonar dósir og krukkur (ég er hirðingi þegar kemur að mat, ég viðurkenni það. Alltaf eins og það sé von á styrjöld eða hungursneyð heima hjá mér...) Sumt endist reyndar mjög lengi í ísskáp og ég get varla lifað án þess að eiga til t.d hvítlauk, kókosmjólk, engifer, kryddmauk ofl. slíkt. Og nú kom það sér svo sannarlega vel.

Það tók ekkert voða langan tíma að græja þessa súpu, lítur eiginlega út fyrir að vera töluvert flóknari en hún raunverulega er vegna þessa langa innihaldslista.

2 geiralausir hvítlaukar (þessir voru frekar litlir, eða 1 1/2 stórir), smátt saxaður
2-3 cm bútur engifer, smátt saxaður
1 rauður chili, fræhreinsaður.
10 cm bútur blaðlaukur skorinn í sneiðar
4 meðalstórar gulrætur, skornar í steniðar
2 skallottulaukar, smátt saxaðir
2 tsk kókosolía
1 l. Kjúklingasoð (eða 1 l. vatn og 3 kjúklingateningar)
2 dósir kókosmjólk (full fat)
1-2 msk rautt karrímauk (magn eftir smekk, er frekar sterkt - ég sett meira en minna núna)
2 msk asísk fiskisósa
safi úr einni límónu (lime)
2 tsk púðursykur
4 kjúklingabringur eldaðar, skornar í bita, einnig hægt að rífa kjöt af heilum kjúkling.
Hrígrjónanúðlur eftir smekk
1 tsk túrmerik
1 tsk kóríender duft (má líka saxa vel af ferskum kóríander ef hann er til)

Söxuð fersk steinselja
Saxaður vorlaukur

Saxið grænmetið og steikið uppúr kókosolíunni. Hellið soði eða vatni og teningum út í og kókosmjólk. Setjið allt krydd saman við og látið malla góða stund. Steikið bringur á meðan og skerið í bita og setjið út í.
Sjóðið núðlur samkvæmt leiðbeiningum, setjið skammt eftir smekk í djúpan disk, súpu þar yfir og skreytið ef vill með ferskri steinselju og söxuðum vorlauk.
Þessi er algjört dúndur og virkar þvílíkt vel á flensu og kvef!

Það er alveg hægt að stilla styrkleikann af með karrímaukinu og rauða chiliinu. Það má alveg sleppa því nú eða bara bæta við fyrir aukinn styrk.

Verði ykkur að góðu og gleðilegt haust!


Ummæli

Vinsælar færslur