Frönsk súkkulaðikaka með þristakremi


Fyrir nokkrum árum fékk ég uppskrift af svipaðri köku en týndi henni í öllu uppskriftaúrklippu flóðinu. Ég man að þau sem fengu að bragða á henni voru öll stórhrifin og sögðu þetta vera skemmtilegt tvist á þessa klassísku köku.

Nú er ég nýbyrjuð í fæðingarorlofi og á sem betur fer ansi vært barn (eins og þetta eldra, byrjaði með þetta blogg í því orlofi) sem leyfir mér að dúllast aðeins í eldhúsinu þegar hann sefur.
Snemma í maí munum við skíra nýju viðbótina og þá er ekki úr vegi að draga upp gamlar uppskriftir og endurgera eftir minni. Mér finnst ansi gott að hafa tímann fyrir mér því ég elska að baka fyrir veislur og auðvitað verður hver terta að vera algjörlega skotheld. Held að það sé óhætt að segja að þessi sé ein af þeim.

Í kökuna sjálfa fer þetta:

4 egg
2dl sykur
1dl Kornax hveiti
100gr 70% súkkulaði
100gr suðusúkkulaði
200gr smjör

Þristakrem
1 poki litlir þristar
3 msk rjómi (má setja smá slettu í viðbót ef það reynist erfitt að bræða þristana)

Aðferð:
Hitið ofninn í 170°C og blástur
Setjið eggin og sykurinn í skál og þeytið mjög vel þar til blandan er orðin létt og ljós.
Bræðið smjörið á vægum hita í potti og bætið súkkulaðinu saman við. Bræðið saman en passið að brenna ekki. Kælið aðeins.
Sigtið hveitið út í eggjablönduna og blandið saman við með sleikju. Látið þvínæst súkkulaðiblönduna útí í mjórri bunu og hrærið varlega með sleikjunni svo loftið fari ekki úr deiginu.
Hellið í vel smurt bökuform, tertuform eða eldfast mót í stærri kantinum og bakið í 30 mín.

Á meðan kakan bakast er gott að skera þristana í bita, setja í lítinn pott ásamt rjómanum og bræða saman rólega. Þegar allt er bráðið saman (athugið að lakkrísinn bráðnar ekki), takið þá pottinn af hellunni. Þegar kakan er tilbúin, kælið hana í nokkrar mínútur áður en kreminu er dreift yfir.

Ég bar fram með henni söxuð jarðarber og rjóma, en það er örugglega líka mjög gott að hafa vanilluís með.
Njótið!

Ummæli

Vinsælar færslur