Hjónabandssælan hennar mömmu


Þegar ég var lítil var mamma mín heimavinnandi. Í minningunni voru þessir tímar þeir allra bestu og ekki síst vegna þess að tíminn fyrir bakstur var oft rúmur. Og það er líklega vegna þessarar hjónabandssælu að mér finnst allur hafra bakstur svo dásamlega ljúffengur. Ég hreinlega elska allt með höfrum!

Ég gerði reyndar rabarbarasultuna sjálf í þessa (úr rabarbara frá mömmu) en það er að sjálfsögðu alls ekki nauðsynlegt. Mér finnst bara alveg hrikalega gott að hafa sultuna aðeins sykurminni og þar af leiðandi aðeins súrari. Einnig finnst mér betra að sjóða hana þannig að hún sé meira rauð en brún.

Þessi kaka slær öll met, þá meina ég hvað hún er auðveld og hún klárast yfirleitt samdægurs!
Fullkomin sumarkaka, mig minnir að hún geymist nokkuð vel og svo fer hún agalega vel í nestisbox.

Innihald:

240gr íslenskt smjör í mýkra lagi
200gr sykur
150gr haframjöl
280gr Kornax hveiti rautt
1 tsk matarsódi
1 egg
1 krukka rabarbarasulta

Hitið ofninn í 175°C blástur.
Hnoðið öllu saman og skiptið deiginu þannig að 2/3 sé sett í tertu eða bökuform og 1/3 verði eftir. Smyrjið góðri rabarbarasultu yfir, mér finnst betra að setja meira en minna, þetta er kannski svona tæp venjuleg stærð af krukku (eins og Kjarnasulturnar t.d)
Setjið restina af deiginu í klípum yfir sultuna og bakið í 40-45 mín.
Best er að láta hana kólna vel og drekka síðan vel af ískaldri mjólk með!

Ummæli

Vinsælar færslur