Möndlu biscotti - Ítalskar tvíbökurFlestum finnst nú svolítið gott að maula eitthvað smá sætt með kaffinu. Sér í lagi ef kaffið er gott og aðeins vandað. Þó svo góður uppáhellingur standi nú auðvitað alltaf fyrir sínu. Þessi sæti biti þarf ekki að vera stór og hann má alveg endast aðeins. Þá er gott að grípa í eina og eina biscotti eða "tvíböku" en þessar kökur eru ítalskar að uppruna og eru í raun bakaðar tvisvar sinnum en biscotti þýðir í raun "eldað tvisvar".

Ég ákvað að skella í eina plötu eða tvær af þessum dásamlegu kökum eftir smá biscotti ævintýri um daginn.
Þannig er að við hjónin áttum leið í Costco (ekki í fyrsta eða annað sinn, ehemm) og bóndinn greip með sér afar fagran stóran poka af ítölskum möndlu biscotti kökum. Ég var meira að segja alveg til í að kaupa hann þrátt fyrir að það sé mjög auðvelt að gera þetta heima sjálfur. En jæja, daginn eftir vorum við búin að gera okkur sitthvorn fínan kaffibollann og spennt að smakka. 
Þvílík og önnur eins vonbrigði! Í alvöru! Þeir höfðu (stóð hvergi á pakkanum, ekki einu sinni í innihaldslýsingu) sett APPELSÍNUDROPA í möndlu biscotti. Almáttugur hvað mér fannst þetta vont og aldrei þessu vant var maðurinn minn mér sammála. Þetta var í alvöru svo vont. 
Ég skilaði pokanum. Já ég hef óbeit á öllu sem er með appelsínubragði og þetta voru að mínu mati smá svik. Ákvað þar með að ég skyldi aldrei aftur reyna að kaupa biscotti. Best að gera þær bara sjálf. 
Að mínu mati eru biscotti bestar með möndlum og því er þetta uppskrift af möndlu biscotti. Mér áskotnaðist þessi uppskrift fyrir mörgum árum en baka hana örugglega ekki oftar en einu sinni á ári. Þetta er alveg tilvalin tækifærisgjöf með einhverju gæðakaffi. Þá hef ég sett þær í einhvern sætan sellófan poka með slaufu og fallegum miða. 
Uppskriftin er semsagt þessi:

150gr möndlur með hýði
6 dl Rautt Kornax hveiti
3 1/2 dl sykur
1/4 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
4 stór egg
2 msk mjúkt smjör
1 tsk vanilludropar
1 tsk möndludropar
2dl + af hveiti til þess að hnoða upp úr

Byrjið á því að rista möndlurnar á pönnu og kæla. Hitið ofn í 200°C blástur.
Blandið hveiti, sykri, matarsóda og salt saman í skál. Bætið síðan við eggjum, smjöri, dropum og möndlum út í og hrærið með sleif eða hrærivél þar til deigið loðir vel saman, passið bara að hræra ekki of mikið. Athugið deigið er frekar blautt.
Flytjið deigið á hveitistráða borðplötu og hnoðið meiru af hveiti upp í deigið. Það á að vera frekar klístrað þegar það er mótað í hleifana. En þegar það er tilbúið eru 4-6 hleifar mótaðir og settir beint á plötu klædda með bökunarpappír.
Hafið ca 5cm á milli þeirra. Ef hleifarnir eru fleiri verða kökurnar minni og það er alls ekkert verra.
Bakið hleifana í 20 mín. Bíðið í nokkrar mínútur þar til mesti hitinn er rokinn úr þeim.

 Setjið þá á skurðarbretti og skáskerið í litlar kökur með beittum hníf. 

Raðið á bökunarplötu og bakið í 5 mínútur á hvorri hlið.Það er hægt að skipta út möndlunum fyrir aðrar hnetur, svosem pekanhnetur eða pistasíur. Einnig er hægt að dýfa þeim aðeins í súkkulaði.
Þær endast vel í lokuðu íláti við stofu hita.

Algjörlega fullkomnar með kaffinu eða kakói svona á íslenskum rigningardögum!Ummæli

Vinsælar færslur