Chia grautur með blönduðum berjum




Ég er eins og svo margir aðrir á þessum tíma ársins. Alveg tilbúin til þess að taka mataræðið aðeins fastari tökum og koma rútínu aftur í gang á heimilið. Stóra stelpan mín er komin í langþráðan 2. bekk og það styttist í að þessi "nýfæddi" fari til dagmömmunnar.
Það er nefnilega eitthvað við september. Þó ég elski sumarið þá finnst mér haustið svo dásamlegt, laufin fara að skipta litum og loks fjúka þau í buskann. Morgnarnir verða stökkir í kuldanum og við þurfum að draga fram úlpur og húfur.

Þegar það verður erfiðara að vakna í vetur og á sama tíma og maður reynir að passa mataræðið, er gott að getað gripið eitthvað næringarríkt með sér inn í daginn. Þessi chia grautur er mitt uppáhald en honum er auðvitað hægt að breyta. Setja aðra tegund af mjólk, aðra bragðdropa eða sleppa þeim. Bæta við kakói eða hnetusmjöri... bara hvað sem er. Það eru bara einföld lykilatriði sem þarf að hafa í huga við gerð chia grauta og ef maður fer eftir þeim er fátt sem getur klikkað.

Innihald:

3 dl Oatly haframjólk (ég set helming Organic og helming Barista, þessi síðarnefnda er rjómakenndari) Einnig hægt að nota venjulega mjólk, möndlu eða sojamjólk.
3 1/2 msk chia fræ (fyrir þynnri graut er gott að setja 3 en mér finnst hann betri svona)
Nokkrir dropar kókosstevía frá Now

Ég set mjólkina í krukku með loki eða glerskál sem ég fékk í Ikea en henni fylgir þétt plastlok. Set fræin út í og hræri aðeins. Bæti svo við dropum. Það er mikilvægt að hræra vel á þessum tímapunkti. Mér finnst best að hræra og bíða í nokkrar mínútur og hræra aftur. Ég set svo krukkuna í ísskáp yfir nótt. Þannig er ég viss um að öll chia fræin hafi bólgnað út og hann sé eins þykkur og ég vil hafa hann. Persónulega finnst mér grautur sem ekki hefur fengið að bíða nógu lengi alls ekki góður.

Þegar ég tek svo krukkuna úr ísskápnum set ég þá ávexti eða ber sem ég á til ofan á. Jafnvel kókosflögur og mórber, en mórberin eru algjört sælgæti og mæli hiklaust með því að þið prófið þessar næringarsprengjur.
Ef ég nota frosin bláber t.d þá set ég þau reyndar útí um kvöldið svo þau nái að þiðna vel.

Gleðilegan morgunmat!

Ummæli

Vinsælar færslur