Gróft brauð með kókos og hnetum (Gló)



Ég smakkaði brauðið á Gló fyrst fyrir mörgum árum. Þá var ég í fæðingarorlofi og hafði farið með mömmuhópnum mínum í hádegismat á Gló við Engjateig. Þetta brauð sem átti að vera meðlæti með súpu minnir mig, varð eiginlega aðalmáltíðin mín. Ég gæti borðað það í alla mata!
Þessi uppskrift er bara aðeins bætt ef það er hægt. Allar uppskriftir sem ég hef rekist á hafa innihaldið of lítið af vatni einhverra hluta vegna. Ég stækkaði hana líka örlítið en annars er þetta sama brauðið. Já jú, reyndar nota ég líka hveiti þar sem spelt er aðeins of þungt í minn maga en að sjálfsögðu er í lagi að halda sig við það.

Ég skil eiginlega ekki af hverju ég hef ekki enn deilt þessari uppskrift. Það er oft bakað á mínu heimili og ég á alltaf til innihaldsefnin. Ég tek gjarnan rispur með það og hvíli inn á milli en uppskriftin er alltaf ofarlega í bunkanum.
Nýbakað með smjöri eða góðum nýgerðum hummus, namm! (Minnir mig á að ég á enn eftir að setja inn mína hummus uppskrift!) 
Það er nú líka alveg semi hollt. Ekki notað ger, góð næring í fræjunum og hnetunum sem gerir það einnig mjög mettandi.



Besta brauðið (innblásið af Gló-brauðinu fræga)
3dl Kornax heilhveiti 
3dl Kornax hveiti rautt
1dl sesamfræ
1dl sólblómafræ
1dl kókosmjöl
1dl saxaðar heslihnetur
1/2dl graskersfræ
1 1/2 msk vínsteinslyftiduft
1 tsk salt
3 msk hunang
6 dl sjóðandi vatn
1 msk sítrónusafi
Hitið ofninn í 180°C. 
Blandið saman þurrefnunum í stóra skál. Hrærið því næst hunangi, vatni og sítrónusafa út í þannig að deigið verði eins og þykkur grautur. 
Setjið í stórt ílangt form klætt bökunarpappír. Bakið í 35 mín í forminu. Takið þá brauðið úr því með því að lyfta upp pappírnum og setjið aftur inn í ofn í ca. 10 mínútur.
Þegar þið takið það út úr ofninum mæli ég með því að vefja það inn í viskastykki og jafnvel geyma það þannig. Skorpan helst svo góð þannig. Þetta brauð ristast líka einstaklega vel og það má auðvitað líka vel frysta það.
Alveg hef ég tekið betri matarmyndir en lýsingin þessa dagana er alveg skelfileg! Þið sjáið allavega hvernig brauðið hjá mér er ;)

Ummæli

Vinsælar færslur