Dúnmjúkar salt-karamellu bollakökur
Nú er góðri bloggpásu lokið í bili. Hef ekki nennt að gera neitt í marga mánuði. Eldhúsið hefur ekki verið eins og ég vil hafa það fyrr en nú. Við fórum í framkvæmdir á eldhúsinu sumarið 2014 en kláruðum aldrei flísalögn á vegg auk þess sem við áttum eftir að loka alveg eyjunni sem við gerðum.
Eftir mjög gott 3 vikna ferðalag til Spánar þar sem við nutum sólarinnar bæði í Cabo Roig og Madrid, duttum við í þvílíkan framkvæmdagír og rumpuðum eldhúsinu af. Svo nú er ég komin með flísarnar mínar og vegg á eyjuna mína!

Og auðvitað höldum við upp á það með kökubakstri. Ég var mjög peppuð fyrir einhvers konar bollakökum þar sem ég hef verið mjög dugleg að horfa á bökunarþætti á Netflix í sumarfríinu. Saltkaramella var að koma sterk inn þar sem mér finnst hún alltaf mjög góð, líka fínt að taka smá pásu frá súkkulaði.

Þessar kökur eru vissulega dísætar en það er gott jafnvægi í þeim vegna sjávarsaltsins í þeim.

Byrjið á því að hita ofninn í 175°C og taka fram bollakökubakka (úr málmi) og raðið í hann formum. Deigið er alveg rúmlegt svo ég fékk 15 stk.

Takið fram 2 skálar eina stærri og aðra minni.

Kökurnar sjálfar:

1 og 1/2 b. Kornax hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk sjávarsalt
1/2 b. hvítur sykur
1 b. dökkur púðursykur
115gr. mjúkt smjör
2 egg
2 tsk vanilludropar
1/2 b. nýmjólk

Salt-karamellukrem

115gr. smjör
1 b. púðursykur
80 ml rjómi
1/2 tsk sjávarsalt
2-3 b. flórsykur (fer eftir því hversu þykkt þið viljið hafa kremið)

Aðferð:

Blandið saman í minni skál: hveiti, lyftidufti og salti og setjið til hliðar. Í stærri skál setjið þið smjörið og sykurinn og þeytið þar til blandan er létt og ljós. Bætið þá eggjum og vanillu saman við og þeytið mjög vel, alveg þar til þetta er orðið mjög flöffí og farið að líkjast smjörkremi.
Blandið þá hveitiblöndunni saman við með sleikju og setjið mjólkina saman við að síðustu.
Hrærið varlega saman og bara þangað til þetta er samblandað.
Fyllið formin til hálfs (alls ekki yfirfylla, þá fer allt út um allt!)

Bakið í miðjum ofninum í 22 - 23 mín. Kökurnar eru tilbúnar þegar tannstöngli er stungið í þær og kemur hreinn út.

Aðferð við kremið:
Þegar kökurnar eru að kólna er kremið undirbúið. Bræðið smjörið í potti og setjið sykurinn því næst út í ásamt rjómanum og salti. Sjóðið saman í 3 mín. Látið bubbla létt þann tíma, takið pottinn svo af hellunni og kælið niður í stofuhita, varist að setja karamelluna í ísskáp til að flýta fyrir.
Þegar karamellan hefur kólnað, bætið þá flórsykri við karamelluna, fínt að byrja á 1 bolla og vinna sig upp í þykktina sem ykkur hugnast.

Ég hafði mitt frekar þykkt svo ég gæti sprautað það með nýja stútnum sem ég átti eftir að prófa en það hefði líka verið fínt að hafa það aðeins þynnra og smyrja því á með litlum spaða.


 


Ummæli

Vinsælar færslur