Finnsk bláberjabaka (mustikkapiirakka)


Þegar skólarnir fara að byrja og berjatínslan komin á fullt (þar sem einhver spretta er, lélegasta berjaár í manna minnum hérna fyrir sunnan) er auðvitað það besta í stöðunni að baka eitthvað sem inniheldur bláber. Eitthvað sem er gott að hafa á borðum í sunnudagskaffinu eða í afmælum. Pínulítið öðruvísi, ekki svo dísætt og einmitt bara akkúrat mátulegt á allan hátt. 

Þetta pie er nákvæmlega þannig. Finnsk bláberjabaka er eins og nafnið gefur til kynna, ættuð frá Finnlandi. Mustikkapiirakka er víst heitið á hinu finnska ylhýra en við látum okkur nægja að kalla þetta bara bláberjaböku, nú eða bláberjatart. Eitthvað svo ótrúlega haustleg og skandinavísk. Fullkomin með kaffi og nettri rjómaslettu. 

Ætlaði alltaf að vera búin að setja inn uppskriftina hingað inn en gleymdist einhvernveginn. Skil eiginlega bara ekki alveg hvernig. Nú! Uppskriftin er ekki flókin og inniheldur ekki flókin eða dýr hráefni og það er nú eitthvað sem mér líkar alltaf sérlega vel. Jafnvel kemur það fyrir að ég þurfi ekki að fara út í búð til þess að nálgast hráefnið í hana.
Málið er nefnilega það að það þurfa auðvitað ekkert að vera íslensk aðalbláber í henni til þess að hún sé almennileg. Ég notast við Euroshopper frosin bláber og það kemur bara svona einstaklega vel út. Verum ekkert að flækja hlutina, sér í lagi ekki þegar berjasumarið er eins og það er. 

Í þetta tart þarftu:

Botn:
150gr mjúkt smjör
150gr sykur
1 egg
1 tsk lyftiduft
200gr Kornax hveiti


Fylling
400gr frosin bláber (eða fersk)
2 1/2 dl 18% sýrður rjómi
50gr sykur
1 egg
1 tsk vanilludropar


Hitið ofninn í 200°C. Þeytið smjörið og sykurinn þar til blandan er létt og ljós. Hrærið eggi saman við. Sigtið hveiti og lyftiduft út í og blandið saman þar til deigið er samfellt. Smyrjið deiginu í vel smurt bökuform og látið deigið ná aðeins upp á brúnirnar. Setjið botninn inn í ofn og á meðan hann bakast þeytið þið sýrðan rjóma, sykur, egg og vanilludropa saman.Takið botninn úr ofninum þegar hann hefur veirð inni í 10 mín. Dreifið frosnum bláberjum yfir botninn og þar yfir hellist eggjaþeytingurinn yfir. 
Berjum dreift yfir en ekki of langt út á brúnina




Á þessu stigi málsins er þetta ekkert sérlega lekkert tart en ég lofa að þetta skánar! Eggjablandan komin yfir og búið að dreifa henni yfir bláberin.



Haldið áfram að baka í 25-30 mín. Slökkvið þá á ofninum og látið kökuna hvílast í ofninum í 10 mín áður en hún er tekin út.

Ég mæli eins og áður sagði að bera bláberjabökuna fram með smá rjómaslettu en skilst nú að vanilluís sé alls ekki síðri.

Gleðilegt haust kæru vinir!




Ummæli

Vinsælar færslur