Karamellu Doré sörur með marsípan botni og karamellukremi

 


Það er fátt hátíðlegra en sörur. Við þekkjum þessar klassísku með möndlubotninum, súkkulaði og kaffi kreminu og hjúpað dásamlegu suðusúkkulaði. Þær eru sí vinsælar og á mörgum heimilum taka fjölskyldur sig saman og baka þær í sameiningu. Það er smá handavinna að útbúa sörur en útkoman er sannarlega þess virði.

Þessar eru tilbrigði við þessar klassísku en almáttugur minn, þær eru sannarlega ekki síðri. Marsípanbotn í grunninn með unaðslegu karamellukremi og hjúpað með silkimjúku Karamellu Doré súkkulaði frá Nóa Síríus.

Líkt og með þessar klassísku geymast þær best í frysti og gott að bera þær fram hálffrosnar. Þessar verðið þið bara að prófa!

Botn:

2 eggjahvítur

1 dl sykur

250g kalt marsípan, rifið fínt

 

Krem:

200g mjúkt smjör

2 eggjarauður

1 tsk vanilludropar

½ dl þykk karamellusósa, hægt að kaupa tilbúna eða gera frá grunni. Uppskrift fylgir.

3 dl flórsykur

Hjúpur

300g Karamellu Doré súkkulaði frá Nóa Síríus

 

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C blástur.

Þeytið saman eggjahvítur og sykur þar til blandan verður að stífum marengs. Rífið marsípanið saman við og hrærið varlega með sleikju. Setjið marengsinn í sprautupoka með kringlóttum stút og sprautið litlar kökur á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Gott að er hafa kökurnar í minni kantinum eða um 2 cm í þvermál.

Bakið í 13-15 mín, fer eftir ofnum. Þær eru tilbúnar þegar þær eru orðnar gullbrúnar. Kælið vel áður en haldið er áfram.

Kremið:

Setjið smjörið í skál og þeytið vel með handþeytara. Setjið rauðurnar, vanilludropana, karamelluna og flórsykurinn saman við og þeytið áfram. Skafið niður hliðarnar og þeytið áfram í góða stund. Best er að þeyta kremið vandlega. Þegar það er tilbúið veltið því aðeins fram og til baka í skálinni með sleikju til þess að losa aðeins um loftbólurnar sem myndast.

Setjið kremið í sprautupoka með kringlóttum stút og sprautið á hverja köku. Magn eftir smekk. Frystið botnana með kreminu.

Hjúpur:

Þegar kökurnar eru frosnar í gegn útbúið þið hjúpinn.

Saxið Karamellu Doré súkkulaðið og setjið í skál sem þolir að fara í örbylgjuofn. Stillið á næstmesta hita og hitið súkkulaðið 15 sekúndur í senn og hrærið á milli. Þegar það er orðið vel bráðið en enn heilir bitar eftir takið þá skálina út og hrærið þangað til það er allt brætt. Þetta er svona lata aðferðin við að tempra súkkulaði og kemur alltaf vel út hjá mér.

Dýfið hverri köku í súkkulaðið og setjið á plötu. Mér finnst gott að vera með hreina og raka tusku við höndina og þurra af fingrunum þegar þess þarf.

Þegar kökurnar hafa allar verið hjúpaðar fara þær aftur í frystinn. Þegar þær eru frosnar í gegn er gott að setja þær í loftþétt box. Geymið í frystinum þar til það á að bera þær fram.

 

 


Ummæli

Vinsælar færslur