Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

þriðjudagur, 14. júní 2016

Myntu krókant rice krispies terta
Þessi sko! Þetta er alveg fullkomin blanda fyrir myntu og rice krispies sjúklinga eins og manninn minn. Hann er algjör sökker fyrir allra handa notkun á rice krispies og yfirleitt endar diskurinn hans í barnaafmælum stútfullur af tómum möffins bréfum utan af slíkum kökum. Já maður vex ekkert upp úr svona gúmmelaði!

Það eru auðvitað til margs konar útgáfur af þessu. Allskonar súkkulaði bætt við, sælgæti, bananar, karamella.. en þessi fór aðeins í aðra átt en ég hef séð hingað til. Tvistið er þetta Marabou myntu krókant súkkulaði sem fæst í Ikea. Það er bara af öðrum heimi, ég get svarið það.

Það lítur svona út...

Þetta í botninn og aðeins í rjómann.. Úff bara!

Þetta er auðvitað hefðbundin uppskrift en þessi klikkar aldrei, ef ég fer eftir henni nákvæmlega þá helst hún vel saman. Alls ekki freistast til þess að bæta aðeins við af morgunkorninu, þá fer allt í rugl! :P

Í botninn þarf:

75gr smjör
50gr Myntu krókant súkkulaði frá Marabou
100gr suðusúkkulaði
6 msk síróp í grænu dósunum
5 bollar rice krispies

Smjör, súkkulaði og síróp brætt í potti
Rice krispies sett í skál, þegar allt er bráðið
Saman er blöndunni hellt yfir rice krispies
Og blandað vel saman með sleikju.
Blöndunni þrýst vel niður í form og kæld vel.

Rjómakrem:
300ml rjómi
100gr myntu krókant súkkulaði saxað
1 tsk kakó
1 tsk vanillusykur


Stífþeytið rjómann með vanillusykri og kakói. Þegar hann er tilbúinn er súkkulaðinu blandað varlega saman við með sleikju. Takið botninn úr forminu og setjið á disk. Smyrjið rjómanum yfir og raspið smá súkkulaði yfir.

föstudagur, 3. júní 2016

Súkkulaði & Hnetusmjörs kubbar

Jess! Skólinn loksins búinn og þá getur allskonar skemmtilegt tekið við líkt og þetta blogg hérna!
Hvað ég hef saknað ykkar!
Er með fullt af uppskriftum sem mig langar að prófa og allskonar hugmyndir í kollinum að nýju gúrmeti. 

Í þetta sinn prófaði ég að gera hnetusmjörsbita með súkkulaði/hnetusmjörskremi. 
Úff.
Þetta er svona, hvað á ég að segja, frekar þéttur haframjölsbotn sem inniheldur m.a hnetusmjör og kremið ofan á er blanda af bráðnu súkkulaði og hnetusmjörskremi. 
Þetta er alveg eins dísætt og brjálæðislega gott og það hljómar. Það nægir alveg að fá sér einn lítinn bita með mjólk (fyrir þá sem þola hana, sem er því miður ekki ég :( ) eða góðu kaffi.

Ég prufukeyrði þessa í kvöld þar sem stelpan mín fer að hætta á leikskólanum sínum og mig langar til þess að senda hana með eitthvað sætt og gott fyrir leikskólakennarana til þess að gæða sér á í kaffinu. 
Held að þetta sé eitthvað!

Hentar örugglega vel í allskonar tilefni, afmæli eða sem smá eftirréttur.Við byrjum á því að hita ofninn í 175°C,
Hefjum svo handa við gera deigið; í það þarftu:

1/2 bolla smjör
1/2 b. sykur
1/2 b. púðursykur
1/3 b. gróft hnetusmjör  (venjulegt, ekki svona fansí lífrænt)
1 egg
1 b. rautt Kornax hveiti
1 b. gróft haframjöl
1/4 tsk salt
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk vanillu essence

Kremið:
100 gr. suðusúkkulaði
1/2 b. flórsykur
1-2 msk mjólk
1/2 b. gróft hnetusmjör

Hrærið vel saman sykurinn, smjörin og eggið. Þeytið með Káinu í svona 2 mín. 
Bætið þurrefnum út í auk vanillunnar og hrærið þar til þetta er blandað saman en ekki lengur en það. 
Þjappið í ferkantað form sem er ca. 20x30 cm. Bakið í 20 mín.
Á meðan  botninn bakast, saxið þá súkkulaðið og hrærið saman kremið. Ekki er þörf á að nota hrærivél eða þeytara. Setjið bara hnetusmjörið, flórsykurinn og mjólkina saman í skál og hrærið með skeið.
Um leið og kakan kemur úr ofninum, stráið þá söxuðu súkkulaðinu jafn yfir botninn. Bíðið smástund og dreifið þá bráðnu súkkulaðinu um botninn. Setjið strax kremið ofan á súkkulaðið og dreifið úr því. Það blandast súkkulaðinu og gerir svolítið skemmtilegt munstur.

Það er örugglega töff að setja smá af söxuðum salthnetum ofan á sem skraut en ég átti þær bara ekki til. 

Algjört lostæti þessi!