Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

föstudagur, 10. apríl 2015

Ofnbakaður hafragrautur með bláberjum og bönunum
Hvað eru mörg bé í því?

Já ég hef séð á vafri mínu á erlendum uppskriftarsíðum, allskonar útgáfur af bökuðum hafragrautum. Það hefur verið lengi á "To do" listanum mínum að gera svoleiðis en það var ekki fyrr en nú í hádeginu sem ég ákvað að láta verða af því. Þvílík og önnur eins snilld. Sér um sig sjálft í ofninum og bragðast eins og hin besta kaka, enginn viðbættur sykur og stútfullt af vítamínum og steinefnum. Það er hægt að nota önnur ber eða aðra ávexti en ég mæli þó eindregið með þessari útgáfu.
Ég notaði frosin bláber sem ég fékk í Bónus, ofsalega góð og klessast ekki eins og önnur sem ég hef prófað.

Í grautinn þarftu eftirfarandi:

2 bolla af grófum höfrum
1/2 tsk sjávar-eða himalaya salt
1 1/2 tsk kanil
1 tsk lyftiduft, vínsteins eða venjulegt
2 bolla af mjólk (skiptir ekki máli hvaða, ég notaði heslihnetu)
2 tsk vanilludropar
1 stórt egg
1 msk bráðin kókosolía eða ósaltað smjör
1/4 - 1/3 bolli Sugarless sugar eða Via health sætan, ég notaði 1/4 og fannst hann alveg nógu sætur
2 þroskaðir bananar
1 bolli bláber ( má alveg vera meira eða minna, ráðið alveg magninu)

Byrjaði á því að hita ofninn í 180°C. Ég skar svo bananana í sneiðar og setti í botninn á frekar litlu ofnföstu móti. Stráði helmingnum af berjunum þar yfir. Tók svo til tvær skálar og blandaði þurrefnum saman í aðra og þeytti blautu efnunum + sætunni saman með písk í hinni. Stráði svo hafrablöndunni þurri yfir bananana og vökvanum því næst þar yfir. Stráði svo restinni af berjunum yfir og bakaði inni í ofni í ca. 35-40mín.

Líka ótrúlega girnilegur svona óbakaður!


Grauturinn fékk að kólna aðeins á meðan ég tók myndir en vá, þetta er nýji uppáhalds spari morgunmaturinn minn (eða hádegismatur). Alger snilld að bjóða upp á hann á brunch hlaðborði, er örugglega nóg fyrir að minnsta kosti 4 mjög svanga.

Skúbba vel á diskinn!


fimmtudagur, 2. apríl 2015

Jarðarberja skyrterta - Sykurlaus!


Jarðarberjafíkilinn langaði í skyrtertu. Þær eru nú oft ekkert sérlega hollar þrátt fyrir að nafnið boði ef til vill einhverja hollustu. Sykraður kexbotn, dísætt skyr og rjómi og svo sulta, pökkuð sykri ofan á. Ekki misskilja mig, þær eru góðar! Mjöööög góðar! En svona þegar maður vill minnka sykurnotkun er hægt að horfa í aðra valkosti.

Ég studdist við uppskrift frá henni Dísu á Dísukökum en hún er alger snillingur þegar kemur að sykur- og hveitilausum uppskriftum, mæli með því að þið kíkið á bloggið hennar og bókina sem hún gaf út fyrir jólin. Þessa skyrtertu má auðvitað tvöfalda í upphaflegu stærð eða jafnvel þrefalda og bjóða upp á sem eftirrétt um páskana.

Ég ákvað semsagt að helminga uppskriftina hennar og sleppa súkkulaðinu, bætti við smá matarlími og hafði frekar jarðarber frekar en bláber. Þá hljómar þetta einhvern veginn svona:50gr smjör
60gr möndlumjöl
rúmlega 1 tsk kanill
1 1/2 msk Sugarless sugar (átti ekki Sukrin gold)

Ég bræddi smjörið og bætti restinni út í pottinn, fann svo lítið eldfast mót og þjappaði deigið ofan í botninn. Bakaði svo við 170°c í 10 mín. Setti það svo beint út á svalir til að kæla á meðan ég gerði rest.


100ml rjómi
1/2 Skyr,is vanillu, stór dós
1 msk sítrónusafi
2 matarlímsblöð

Ég setti matarlímið í bleyti í kalt vatn á meðan ég þeytti rjómann. Kreisti vatnið úr blöðunum eftir svona 5 mínútur og bræddi það rólega með sítrónusafanum. Blandaði skyri og rjóma saman og hrærði svo matarlími út í í lokin. Lét þetta svo aðeins bíða meðan ég græjaði jarðarberjahlaupið.
Ca. 8-10 frosin jarðarber
1 msk Sugarless sugar
1 msk vatn
2 matarlímsblöð

Ég byrjaði einnig á því að leggja matarlímsblöðin í bleyti. Setti svo jarðarberin í pott ásamt vatni og Sugarless sugar. Ég hitaði jarðarberin alveg í gegn með sætuefninu, þetta náði alveg að bullsjóða í nokkrar mínútur. Maukaði svo í pottinum með töfrasprota. Í lokin setti ég mjúk matarlímsblöðin út í pottinn og hrærði vel þar til þau voru uppleyst. Tók þá pottinn af hellunni til þess að leyfa blöndunni að kólna.

Samsetning:
Tilbúið fyrir samsetningu!

Þegar möndlubotninn var orðinn kaldur, setti ég skyrblönduna yfir, þurfti aðeins að skella forminu í borðið til þess að losna við loftbólur. Að síðustu dreifði ég jarðarberjablöndunni yfir.
Setti kökuna svo beint inn í ísskáp svo hún stífni almennilega en mér finnst einmitt svona skyr og ostakökur þurfa að vera frekar stífar, annars finnst mér ég geta bara borðað skyrið beint upp úr dósinni. Það þarf auðvitað ekkert að nota matarlímið, það er bara smekksatriði :)


Er hún ekki falleg?! Vantar bara fersku berin!