Velkomin í eldhúsið mitt!

Velkomin Í Eldhúsið Mitt!

mánudagur, 26. janúar 2015

Súkkulaði og hnetusmjör - Himnesk blanda!

Ójá! Ég er ein af þeim sem elska þessa blöndu. Og ég gerði svo góðan hristing í dag að ég verð bara að deila honum með ykkur.
Mig vantaði eitthvað sætt en samt hollt, tók erfiða æfingu seinnipartinn og því mátti alveg vera smá orka í þessu. Stelpan mín var heima í dag og tók auðvitað sérlega vel í það þegar ég stakk upp á því að gera súkkulaðisjeik! En ekki hvað?

Ég skutlaði í blandarann sirkabát þessu, en athugið að magn er ekki heilagt og það má alveg smakka til. Þessi er alveg ótrúlega saðsamur, gat klárað með herkjum og hann dugði mér vel í þónokkuð marga tíma auk æfingar!

Fullt af klaka, var örugglega með vel rúmlega 1 bolla
1 gulur banani (Ekki grænn, ekki farinn að brúnast. Bara fullkominn)
1/2 slappur brúnn banani (svona fyrir aðeins meiri sætu)
2 tsk gott kakó
1 kúfuð msk hnetusmjör
Möndlu/rísmjólk (Blanda sem fæst í Nettó, alveg hægt að nota undanrennu, léttmjólk eða aðrar tegundir)

Setja allt á skrilljón og setja í töff glas, eða glas með röri. Eða eitthvað. Bara njóta.

miðvikudagur, 21. janúar 2015

Eðlukjúlli


Fyrir langa löngu síðan smakkaði ég heita ostasalsa ídýfu. Hefur verið á borðum í partýum og saumaklúbbum í mörg ár og allir elska þessa dýfu. Þessi klassíska, rjómaostur, salsa og ostur og inn í ofn. Mmm.. Sjóðheit með nachos!
Þessi dýfa gekk svo í endurnýjun lífdaga hjá unglingunum og ungu fólki undir nafninu "eðlan". Það keppast allir við að gera hana og allir elska hana. Þannig að ef þú vilt slá algerlega í gegn hjá krökkunum þínum þá er þessi réttur algerlega fullkominn.
Ótrúlega einfalt og meðlætið getur verið af fjölbreyttum toga.

Ég persónulega er aðeins að slaka á í brauðáti þessa dagana og var því sjálf ekki með nachos eða tortillur með en þess í stað var ég með guacamole-ið fína og risa hrúgu af salati.

Þetta er svo einfalt að þið trúið því ekki!

4 kjúklingabringur skornar í sneiðar þversum, kryddaðar með salti, pipar og hvítlauksdufti
1/2 krukka Santa Maria Salsasósa Mild (stóru krukkurnar með græna lokinu)
3-4 msk af rjómaosti
rifinn ostur eftir smekk

Steikið kjúklingabitana á pönnu og kryddið. Setjið salsasósuna og rjómaostinn út í þegar þeir eru orðnir brúnaðir á báðum hliðum. (Það má alveg setja meira af sósunni og rjómaostinum, magnið er ekkert heilagt). Látið malla í smástund með lokið á pönnunni.
Stráið osti yfir og setjið lokið aftur yfir til þess að bræða ostinn.

Berið fram með öllu því sem ykkur dettur í hug, hægt að setja í tortillur, beint á salat, eintómt með nachos osfrv.

föstudagur, 9. janúar 2015

Gulrótakaka með rjómaostakaramellukremi! Sykurlaus!

Ekki fallegasta kökumynd í heimi, en góð er hún!


Ég hef verið að skipuleggja aðeins hjá mér í eldhúsinu. Elda í frystinn og þess háttar. Finnst fínt að skipuleggja mig aðeins fram í tímann þar sem skólinn byrjar hjá mér í næstu viku og er að fara að taka áfanga sem fylgir alveg ofsalega mikill lestur og ritgerðaskrif. Þá er nú gott að getað tekið út eitthvað tilbúið, hollt og miklu miklu hagstæðara! Skrifa kannski sérstaklega um það síðar. En að máli málanna. Þessi kaka hefur birst hér áður á blogginu: Gulrótakakan góða

Þessi kaka er einfaldari en hún lítur út fyrir að vera. Í alvöru talað! Ég setti hana í 24cm hringform og bakaði við 175°c í líklega svona 25 mín í mínum ofni. Gott að fylgjast bara með.

Kremið er hinsvegar afrakstur tilrauna með Sugarless Sugar frá Now. Það er eitt uppáhalds sætuefnið mitt og gaman að gera tilraunir með það.
Úr varð karamellukrem sem er bara alveg ótrúlega gott. Það sem ég gerði var eftirfarandi:

Setti 50gr af smjöri í pott og bræddi, bætti svo við ca. 1 dl af Sugarless Sugar. Hrærði þetta vel saman, sætuefnið virðist ekki bráðna strax en gerir það á endanum. Bætið við rúmlega 1 tsk af vanillu essence. Hrærið vel við miðlungshita þar til þetta er orðið samfellt og farið að þykkna aðeins.Hér gæti þurft aðeins meira af sætuefninu en þið sjáið bara til.
Takið af hellunni, bætið svo við rúmlega matskeið af rjómaosti og 2 tsk af ferskum.sítrónusafa. Hrærið þar til rjómaosturinn er bráðinn. Látið kólna næstum alveg, hrærið svo upp í kreminu og látið svo á kökuna.
Þetta krem er of gott til þess að vera satt, ég sver það!

Símakökumyndir eru hreint ekkert æðislegar en gefur þó einhverja mynd af útkomunni

miðvikudagur, 7. janúar 2015

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014 og sú fyrsta á nýju ári!

Gleðilegt nýtt ár elsku bestu lesendur og takk kærlega fyrir það gamla!

Eldhúsið mitt tókst algerlega á loft á árinu, í bókstaflegri merkingu! Henti út því næstum fertuga og ónýta og breytti því algerlega, reif niður vegg, fann draumaeldhúsið í Ikea og ný eldunartæki. Við hjónin tókum svo sumarfríið í að setja það upp með dyggri aðstoð fjölskyldunnar.

Bloggið nældi sér í ansi marga nýja lesendur og er ég afar þakklát fyrir. Mér finnst alveg óskaplega gaman að skrifa niður margt af því sem ég er að gera og markmið þessa árs er að vera enn duglegri við það. Ég á það til að taka myndir og skrifa niður á blað það sem ég er að gera en gleyma svo að setja það hingað inn, maður er nú stundum aaalveg!

Snúðarnir góðu voru lang mest skoðaða uppskriftin og var langt á undan öllu öðru sem ég hef birt hér. Það er kannski ekki furða, því þó ég segi sjálf frá þá eru þeir algert lostæti. Auk þess að vera ódýrir, það þarf ekki eiga til mörg dýr innihaldsefni til þess að galdra þá fram: http://eldhusid.blogspot.com/2014/11/snuar-betri-en-ur-bakariinu.html

Einnig skellti ég í sykurlaust bananabrauð og það var nú líka ansi vinsælt! Fullkomið að byrja nýja árið á aðeins hollari bakstri! http://eldhusid.blogspot.com/2014/08/sykurlaust-bananabrau.html

Gratíneraði kjúklingarétturinn sló einnig heldur betur í gegn. Hann birtist í dásamlegri matreiðslubók sem hún Berglind á Gulur rauður grænn og salt gaf út. Fullkominn í matarboðið: http://eldhusid.blogspot.com/2011/01/gratineraur-kjuklingarettur-me-beikoni.html


Nú á nýju ári ætla ég hinsvegar að birta uppskrift af uppáhalds guacamole-inu mínu. Ég gæti borðað það með skeið, en í þetta sinn var ég reyndar með ofnbakaðan kjúkling og fajitas brún hrísgrjón með.

Í þennan mexíkó ættaða unað þarftu eftirfarandi:

4 passlega þroskuð lítil avocado (þessi litlu úr Bónus)
2 meðalstórir þroskaðir tómatar, smátt saxaðir
1/2 fínt saxaður rauðlaukur
1/4 - 1/2 hvítlaukur geiralaus, rifinn á rifjárni eða pressaður
Safi úr einu lime
1 tsk salt (ekki borðsalt, frekar maldon eða kosher)
1/2 tsk cummin

Stappið avocadoið í skál og blandið rest saman við. Geymið í ísskáp í allavega 1 klst áður en þetta er borið fram.Ég ætti kannski að setja niður uppskriftina af hrísgrjónunum líka. Þau eru afar einföld og fín með mexíkóskum mat.

1 bolli brún hrísgrjón
2 bollar vatn
1/2 kjúklingateningur
Suðan látin koma upp og sjóðið í ca 25mín á lágum hita eða þangað til þau eru næstum tilbúin.

1/2 rauðlaukur saxaður
1/2 paprika söxuð
hvítlaukur
1/4-1/2 bréf Fajitas krydd
1/2 bolli vatn

Steikið lauk, papriku og hvítlauk í stutta stund á pönnu, bætið við soðnum hrísgrjónum og blandið saman á pönnunni. Bætið kryddi og vatni út á og blandið saman. Passið samt að hræra ekki of mikið svo þetta verði ekki að graut. Lækkið hitann niður í lægsta og látið malla í stutta stund áður en þetta er borið fram.